Monday, December 22, 2014

Sjálfbær ferðaþjónusta

Að vissu leyti má færa rök að því að hin stóraukna ásókn ferðamanna til Íslands hafi mildað það högg sem varð eftir að allt hrundi árið 2008. Ferðamenn fóru að koma í stórum stíl, eyða gjaldeyri og sækjast eftir þjónustu. Þetta leiddi síðan til þess að alls konar ferðaþjónusta fór að vera í boði til þess að mæta þeirri miklu ásókn sem var í íslenska náttúru og afþreyjingu.

Það hefur hins vegar verið sorglegt að hluti þessarar auknu ferðaþjónustu hefur byggst upp með skyndigróða í huga og því oft ekki horft á að tryggja tekjur og tækifæri til framtíðar. Þetta eru mistök sem því miður allt of mörg lönd hafa gert og þau leiða einfaldlega til þess að áhugi fólks á að heimsækja þau dvínar mjög fljótt aftur og höggið sem verður við að ferðamennirnir koma ekki lengur verður mjög stórt.

Það er því mikilvægt að við leitum leiða til þess að hvetja þá sem bjóða upp á ferðaþjónustu að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu. Hvað á ég við með sjálfbæra þjónustu? Þar á ég við þjónustu sem horfir til lengri tíma. Þjónustu sem að einblínir á að byggja upp möguleika til framtíðar í stað þess að einblína á skyndigróða.

Gefum okkur dæmi. Segjum að aðili í ferðaþjónustu bjóði upp á hestaferðir. Ásóknin er góð og sífellt fleiri ferðamenn sækja í að koma á hestbak og njóta íslenskrar náttúru frá þessu sjónarhorni. Ef ásóknin er mikil, þá hlýtur að liggja best við að geta boðið upp á aukna þjónustu til að mæta eftirspurninni. Í stað þess að vera með 10 hesta í boði, þá er sótt um lán til þess að kaupa 10 hesta i viðbót. Viti menn, það kemur góð grein á TripAdvisor og allt í einu er brjálað að gera og nær allir 20 hestarnir í stanslausri notkun. Aftur er því farið í bankann og fengið lán fyrir 20 hestum í viðbót svo að hægt sé að græða enn nú meira á þessum blessuðu ferðamönnum. Nú eru komnir 40 hestar í stanslausri notkun, fullt af starfsfólki og allt virðist vera að ganga eins og best er á kosið.

Svo fara TripAdvisor umsagnirnar allt í einu að snúast við. Ljóminn af því að njóta fallegrar náttúru hefur horfið hjá ferðamönnunum, því að þeir upplifa nú orðið niðurtroðna slóða sem láta illa sjá eftir ágang allra hestanna. Það fara líka að koma kvartanir yfir því að þjónustan sé ekki eins persónuleg og fyrri viðskiptavinir hafi talað um. Allt í einu hrapa bókanir og ferðamenn leita annað. Nú fer að verða erfitt að standa undir lánunum af öllum hrossunum, svo ekki sé talað um af Range Rovernum sem keyptur var þegar ferðamannagóðærið virtist engan enda ætla að taka...

Tökum svo dæmi um ferðaþjónustuaðilann í næstu sveit við hliðina á. Rétt eins og hinn aðilinn þá var ákveðið að fara út í ferðaþjónustu og bjóða upp á hestaferðir. Þeir tíu hestar sem til voru á heimilinu voru notaðir og boðið upp á stuttar klukkutíma eða dagsferðir á hestum um sveitina. Þjónustan var persónuleg og náttúran að mestu leyti ósnert og fögur. Að sjálfsögðu létu viðskiptavinirnir ánægju sína í ljós á TripAdvisor og öðrum vefsíðum, rétt eins og hjá hinum aðilanum. Ásóknin jókst og ánægjan meðal viðskiptavinanna hélst stöðug.

Nú var komið að því að það var orðið að mestu fullbókað í allar ferðir. En eigandinn hafði áhyggjur af því að leiðirnar sem farnar voru í reiðtúrunum voru farnar að láta á sjá og var því hrædd við að bæta við fleiri ferðum á svæðið, nema eitthvað yrði fyrst gert til að tryggja að ástand svæðisins væri í góðu formi. Hún ákvað því að nýta hluta af tekjunum í að ráða starfsfólk í að græða upp hluta af því svæði sem var farið að láta á sjá. Leiðum var breytt meðan þau sár sem myndast höfðu í náttúruna voru grædd.

Í stað þess að auka framboðið, þá horfði eigandinn til þess hvernig hún gæti fengið meira út úr þeim ánægðu kúnnum sem hún var þegar að fá á svæðið. Hún fór að bjóða upp á "ekta íslenska sveitamáltíð" fyrir þá sem komu í styttri túranna og bauð upp á að velja um "lúxus nesti" fyrir þá sem voru að koma í dagsferðirnar. Hún bauð handverkskonum í sveitinni að selja vörur í hlöðunni þar sem tekið var á móti fólki. Allt saman leiddi þetta til ánægðari viðskiptavina sem eyddu meiri peningum, á meðan að náttúran fékk að haldast og raunverulegur ágóði jókst, í stað þess að skuldir jukust að sama skapi.

En hvað er hægt að gera til þess að höfða til ferðaþjónustuaðila að hugsa til lengri tíma og hugsa frekar um sjálfbærni en skyndigróða? Það eru margar leiðir til þess. Í fyrsta lagi eru til alþjóðlegir staðlar og vottanir um sjálfbærni. Við getum hvatt ferðaþjónustuaðila til þess að sækjast eftir slíkum vottunum. Við getum líka fundið leiðir til þess að lækka álögur á þá sem að velja að fylgja sjálfbærnihugsjónum, rétt eins og við gáfum eftir ýmis gjöld til þeirra sem völdu að kaupa rafmagnsbíla í stað bensínbíla. Aðilar eins og Íslandsstofa getur hjálpað til að koma þeim sérstaklega á framfæri sem eru með sjálfbæra ferðaþjónustu. Svo getum við líka farið hina leiðina og sett sérstakar álögur og skatta á þá sem að ekki fylgja sjálfbærni - oft virkar prikið betur en gulrótin í þessum efnum.

Það er mikilvægt að við hugsum til framtíðar. Við eigum einstaka náttúruperlu sem heitir Ísland. Við erum hins vegar á góðri leið með að leyfa ágangi og skammtímagróða að eyðileggja möguleika okkar til þess að njóta þessarar fegurðar. Áhugi ferðamanna er gífurlegur á Íslandi. En um leið og fólk fer að lesa um það hvernig þjónusta fer niður á við, náttúra fer að á sjá, þá hverfa töfrarnir sem að landið okkar hefur og ferðamenn leita annað. Lærum af mistökum annara þjóða og tryggjum að við séum að byggja upp ferðaþjónustu til framtíðar.

Wednesday, December 10, 2014

Að halda lífi í dreifðum byggðum

Í stjórnmálum á Íslandi er eilíf barátta milli landsbyggðarinanr og malbiksins. Stjórnmálamenn utan af landi reyna eftir mætti að halda lífi í dreifðum byggðum landsins og búa til atvinnutækifæri á landsbyggðinni. Oft gerist það í formi þess að flytja heilu stofnanirnar út á land með tilheyrandi kostnaði og röskun á starfsfólki. Stjórnmálamönnunum er auðvitað alveg sama því að þeir eru að tryggja atkvæði í sínu kjördæmi og hvort kjósendur á malbikinu verða fúlir skiptir þá ekki máli, því það eru ekki þeirra kjósendur.

Að sama skapi eru margir byggðakjarnar úti á landi mjög háðir einu eða tveimur stórum fyrirtækjum. Oft eru þetta útgerðir, kaupfélög eða önnur slík fyrirtæki. Mýmörg dæmi eru um það að þessi fyrirtæki stjórni í raun öllu í sveitarfélögunum sem þau eru í - ef þau biðja um eitthvað þá sé það auðvitað samþykkt því að annars er jú alltaf hætta á að þau fari annað.

Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að færri stóriðjur verða tilbúnar að byggja upp starfsemi fjarri stöðum sem að menntað starfsfólk er í boði, svo ekki sé talað um þau áhrif sem slík starfsemi hefur á umhverfið. Útgerðir munu einnig ganga í gegnum miklar sveiflur upp og niður eftir því sem að fiskistofnar hrynja eða vaxa í takt við breytingar í hafinu í kringum okkur. Sumar þeirra eru einnig farnar að hugsa um hagkvæmni og loka starfstöðum og sameina. Allt ógnar þetta framtíð dreifðar byggðar út um allt land.

En hvað er þá lausnin til þess að halda lífi í þessum dreifðu byggðum þar sem samgöngur eru jafnvel mjög erfiðar um hávetur. Hvernig getum við gefið þeim sem vilja búa á þessum fögru fjörðum og uppsveitum tækifæri til þess að njóta sömu tækifæra og þjónustu og þeir sem búa á malbikinu hafa?

Í síðasta pistli mínum fjallaði ég um þau tækifæri sem fjarmenntun veitti til þess að ná fram hagkvæmni stærðarinnar þrátt fyrir að vera lítil þjóð. Með því að auka tækifæri í fjarmenntun og fjarnámi þá erum við líka að auka tækifæri fólks sem býr utan höfuðborgarinnar til þess að sækja sér sömu menntun og þeir sem þar búa. Hvort nemandi býr á Neskaupstað eða í Nepal skiptir ekki öllu máli, séu möguleikar til þess að tengjast á netið í góðu lagi.

Við búum við það hér á landi að hafa fjárfest í ljósleiðara í kringum landið. Langflest byggðarlög úti á landi eru nú orðin tengd inn á þennan ljósleiðara og framþróun í þráðlausum fjarskiptum opna nú upp á möguleika að ná fram háhraðatengingum (1Gbps) í allt í 100km fjarlægð frá þeim punktum sem eru tengdir inn á ljósleiðara. Þetta þýðir að jafnvel afskektar byggðir landsins utan ljósleiðarahringsins er hægt orðið að tengja inn á hann fyrir litlar fjárhæðir.

Leið og hægt er að bjóða, sér í lagi ungu fólki, upp á aukin menntunartækifæri úti á landsbyggðinni, þá er jafnfræmt mikilvægt að skapa einnig atvinnutækifæri þar. Síðastliðin sjö ár hef ég unnið í fjarvinnu fyrir þau fyrirtæki og samtök sem ég hef unnið hjá. Í raun skipti það engu máli hvort ég var á Neskaupstað eða í Nairobi þegar ég vann mína vinnu, svo lengi sem að ég gat komist á Internetið.

Fyrirtæki eru í auknu mæli að bjóða starfsfólki sínu að vinna hvar sem er. Það hvort að höfuðstöðvar einhverjar stofnunnar eru í Reykjavík, Akureyri, eða Höfn í Hornafirði skiptir í raun ekki máli. Starfsfólkið getur verið hvar sem er - jafnvel erlendis. Þegar kemur að því hvar starfsfólkið þitt vinnur, þá skiptir mestu máli að það sé ánægt og hafi aðgang að netinu. Allt annað skiptir ekki máli. Síma- eða mynd-fjarfundir eru eitthvað sem við öll sem vinnum með erlendum aðilum gerum daglega. Því ætti ekki að vera hægt að nýta tæknina á sama máta til þess að hafa starfsfólk fyrirtækja og stofnanna staðsett hvar sem er í heiminum.

Að sama skapi þá opnar fjarvinna líka upp tækifæri fyrir fólk sem býr úti á landi til þess að starfa fyrir erlend fyrirtæki. Þessi fjarvinna getur bæði verið vinna sem krefst mikilar menntunar og reynslu eða hún getur verið einföld gangavinnsla, eins og t.d. það að skrifa niður læknaskýrslur út frá upptökum lækna - "iðnaður" sem veltir milljörðum á hverju ári.

Þessi auknu tækifæri til menntunar og starfa á hinum dreifðu svæðum, leiðir einnig til þess að aukin tækifæri verða til fyrir sköpun og frumnkvöðlastarf úti á landi. Það hvar frumkvöðlar starfa skiptir ekki máli ef að þeir alast upp við það að vinna með öðrum í gegnum netið. Það að framleiða og skapa nýjar vörur og þjónustu krefst þess ekki lengur að þú sért staðsett í London, París eða New York til þess að "meika það" - því að í dag eru flestar vörur seldar í gegnum netið og enginn veit hvort þær eru sendar frá pósthúsinu á Egilsstöðum eða Reykjavík.

Tækifæri fortíðarinnar fólust í því að byggja vegi og gera fólki kleyft að koma vörum á markaði og sækja þjónustu til höfuðborgarinnar. Möguleikar framtíðarinnar koma í gegnum starfrænar hraðbrautir ljósleiðaranna sem opna upp tækifæri til þess að sækja vinnu, þjónustu og menntun hvar sem er í heiminum og koma vörum á markað, óháð staðsetningu.

Við þurfum leiðtoga sem að sjá tækifæri í þessum nýja heimi í stað þess að halda að lausnir og aðferðafræðir fortíðarinnar eigi ennþá við. Hvort það gerist fyrr en hin stafræna kynslóð kemst til valda er spurning - kannski eru einhverjir leiðtogar þarna úti sem að átta sig á þeim breytta heimi sem við lifum í og grípa tækifærin þrátt fyrir að hafa ekki alist upp við þennan nýja stafræna veruleika.

Sunday, December 7, 2014

Að vera lítil þjóð

Við Íslendingar eru ekki fjölmenn þjóð. Það er oft gantast með það að við séum eins og hverfi í stórborg. Sjálfsímynd okkar speglast hins vegar í frægri setningu forsetafrúarinnar "stórasta land í heimi". Við héldum að við gætum orðið að stórri fjármálamiðstöð, en gleymdum að til þess þarf stórt hagkerfi sem getur tekið við sveiflum. Við reynum að halda úti heilbrigðiskerfi, en höfum ekki efni á því að borga læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki samkeppnishæf laun. Við höldum úti fjölmörgum háskólum, en höfum ekki hæga peninga eða getu til að bjóða upp á fjölbreytt og samkeppnishæft nám.

Þegar kemur að því að leysa vandamál smæðarinnar, þá einblína stjórnmálamenn ávalt á eina tegund af lausn í einu. Hér áður fyrr var það sjávarútvegurinn - það var alveg sama hvað þeir þurftu, gengisfellingar, meiri kvóta, o.s.frv. - það var gengið að þeirra kröfum og þörfum óháð því hvaða áhrif þetta hefði á aðra. Næst var það álið. Við hljótum að geta drifið áfram orkufrekan iðnað, því að við eigum ódýrt rafmagn. Við horfum framhjá því að iðnaður og virkjanir hafa áhrif á umhverfið og einnig því að oft fáum við ekki einu sinni starfsfólk til þess að vinna í þessum iðnaði.

Í upphafi þessarar aldar var það svo fjármálamarkaðurinn og það að eignast fyrirtæki út um allan heim sem átti að gera okkur að stórasta landi í heimi. Við vitum öll hvernig það fór. Eftir hrunið tók ferðamannaiðnaðurinn við og endalaus fjöldi ferðamanna streymir inn í landið og farið er að sjá á viðkvæmu landinu, því að skyndigróðinn er mikilvægari en varkár uppbygging.

Það er sorglegt að sjá að tækifæris-hugsunin ræður ríkjum. Stjórnmálamenn gera lítið annað en að ota sínum pota og argast út í hvern annan. Hér áður fyrr voru það Vinstri Grænir sem fengu nafnið "Alltaf á móti", en nú eru stjórnmálamenn allra flokka alltaf á móti hverju því sem að aðilar úr öðrum flokkum leggja til. Fögur kosningaloforð eru gefin og allt gert til þess að láta þau fram ganga, til þess eins að tryggja að næstu kosningar fari nú örugglega vel.

En getum við, þessi litla þjóð, þar sem allir eiga mikilla hagsmuna að geta, virkilega fundið leiðir til þess að horfa fram á við og stækka og þroskast á þá vegu að ekki hljótist skaði af og við förum ekki endalaust í gegnum sveiflur og bólur sem springa?

Á sama tíma og við erum að vaxa frá því að vera lítil sjálfstæð þjóð í miðju Atlandshafi, þá er heimurinn í kringum okkur einnig að breytast. Landamæri og fjarlægðir eru smátt og smátt að hverfa. Fólk býr og vinnur nú oft ekki lengur í sínu heimalandi eins og tíðkaðist. Fólk jafnvel býr ekki þar sem það vinnur, því að það að mæta til vinnu á skrifstofu er nú oft ekki lengur nauðsyn. Allar þessar breytingar skapa bæði tækifæri og ógnir fyrir litla þjóð eins og Ísland.

Ógnirnar eru þær að okkar besta fólk hefur miklu meiri tækifæri til þess að leita sér að námi eða vinnu úti í hinum stóra heimi og við getum því átt hættu á því að okkar besta og menntaðasta fólk hverfi af landi brott. Við erum þegar farin að sjá þetta í heilbrigðisgeiranum, þar sem að það er í raun af einskærri föðurlandsást að heilbrigðisstarfsfólk fer ekki úr landi.

Tækifærin eru þau að þetta opnar upp fyrir okkur möguleika á að skapa vinnu og skala upp þá hluti sem eru of smáir í rekstri í núverandi þjóðfélagi til þess að geta staðið undir sér rekstrarlega. Tökum aftur heilbrigðiskerfið sem dæmi. Í áratug(i) hefur Ísland átt sér draum um að hér sé "hátæknisjúkrahús". Raunveruleikinn er sá að svona lítil þjóð eins og við höfum ekki efni á því að byggja og reka slíkt sjúkrahús. Stjórnmálamenn gefa loforð um að ákveðið fjármagn fari í þetta og ganga jafnvel svo langt að láta teikna byggingar svo að draumnum sé haldið á lífi.

Heilbrigðisþjónusta er einn af stærstu geirunum í heiminum. Árlega eyða sjúklingar um 10 milljörðum dollara (1.240 milljarðar íslenskra króna) í sjúkrahúsþjónustu utan síns heimalands. Áætlað er að þessi tala hækki í 32.5 milljarða dollara (4.042 milljarðar íslenskra króna) árið 2019. Mjög stór hluti fólks fer til Asíu þar sem að sérstakur fókus hefur verið á að bjóða upp á topp þjónustu á hátæknispítölum. Aðilar hafa reynt að byrja að stíla inn á þennan markað í smáum stíl, en stjórnmálamenn verið fljótir að byrja að rífast um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Málið er einfaldlega það að ef við ætlum að geta boðið okkar besta heilbrigðisstarfsfólki upp á samkeppnishæf laun og áhugaverða vinnu, þá verðum við að skala upp okkar heilbrigðiskerfi. Slíkt þarf ekki að gerast eingöngu á kostnað ríkisins, heldur er hægt að fara í samstarf milli einkageirans og ríkisins í að fjármagna og byggja upp þjónustu á heimsmælikvarða sem eftirsótt væri bæði meðal sjúklinga og starfsfólks. Sé byggður hátæknispítali, sem ekki einungis geti þjónað þessum fáu íbúum þessa lands, heldur líka stórum fjölda fólks annars staðar frá, þá er hægt að ná fram hagkvæmni stærðarinnar sem nauðsynleg er til þess að slíkt verði arðbært. Hver veit, nema ef hugsað er stórt og rétt er haldið um verkefnið að þá finnum við leið til þess að fjármagna allan kostnað ríkisins við heilbrigðisþjónustu með sköttum af heilbrigðisþjónustu við erlenda aðila.

Lítum næst til háskólanna okkar. Við eigum ótrúlega flotta skóla, sem eru að gera góða hluti á heimsmælikvarða. Vandamálið er hins vegar það að smæðin er svo lítil að það er erfitt að bjóða upp á fjölbreytt nám við allra hæfi. Háskólarnir eru flestir reknir með miklum halla og oft lítið svigrúm til þess að auka fjölbreytileika eða til þess að laða að sér öflugt rannsóknarstarf.

Háskólanám um allan heim er að taka stórum stakkaskiptum. Staðsetning nemenda og skóla skiptir ekki eins miklu máli og áður. Það er hins vegar enn mjög mikilvægt að það nám sem þú tekur þér fyrir hendur sé viðurkennt og frá skóla sem heldur uppi háum gæðakröfum. Reiknað er með að árið 2017 verði 1.4 milljarður manna í einhvers konar fjarnámi í gegnum Internetið. Þessar breytingar eru rétt eins og áður sagði bæði forsenda tækifæra og ógna. Ógnirnar eru auðvitað þær að fólk stundi ekki lengur nám við skóla á Íslandi, því að það getur stundað fjölbreyttara nám við sitt hæfi við skóla annars staðar í heiminum, án þess þó að þurfa að fara úr túnfætinum heima á Íslandi.

Tækifærin eru þau að við eigum þegar öfluga skóla með góða kennara. Við eigum nám sem er viðurkennt og virt út um allan heim. Til þess að tryggja framtíð þess, þá þurfum við, rétt eins og innan heilbrigðiskerfisins að skala okkur upp þannig að rekstargrundvöllur sé fyrir hendi. Háskólar á Íslandi eru þegar byrjaðir að bjóða upp á fjarnám, en því miður er það enn mjög takmarkað og kennslan fer oft fram á íslensku, þó svo að mest allt námsefnið sé á ensku.

Við höfum stór tækifæri til þess að skala háskólanám á Íslandi upp með því að bjóða upp á öflugt, virt, og fjölbreytt nám í fjarkennslu sem verður mjög samkeppnishæft á hinunm alþjóðlega markaði. Rétt eins og með því að fá erlenda sjúklinga inn í heilbrigðiskerfið okkar til að ná fram hagkvæmni stærðarinnar þá er nauðsynlegt að bæta við þúsundum nemenda inn í haskólanám á Íslandi.

Þetta eru einungis tvö dæmi um það hvernig við, þessi litla þjóð, getum í hinu nýja umhverfi náð fram hagkvæmni stærðarinnar sem við hingað til höfum ekki haft tækifæri til. En til þess að slíkt náist fram að ganga, þá er nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn og samfélagið í heild að láta gamlar bábiljur og hræðslu við að gera hlutina öðruvísi ekki stoppa okkur í að tryggja að framtíð þessarar þjóðar sé tryggð.

Tími nýrrar hugsunar er komin og nauðsynlegt að allar hliðar stjórnmálanna vinni saman í stað þess að láta gamla og úrelta hugsjón og sjónarmið ráða ríkjum. Fyrir tæpum sjötíu árum, náðu tveir stjórnmálaleiðtogar, sitt úr hvorri hlið stjórnmálanna, Einar Olgeirsson og Ólafur Thors, að snúa bökum saman og vinna saman af því að koma Íslandi inn í tölu þróaðra landa. Nú er kominn tími á að finna leiðtoga sem eru tilbúnir að slíðra sverðin og koma Íslandi inn í tuttugustu og fyrstu öldina.

Sunday, October 2, 2011

Aldrei aftur

Fyrir rúmum þremur árum gengu Keníabúar í gegnum sitt erfiðasta tímabil frá því að landið fékk sjálfstæði. Eftir að forseti landsins sá fram á að flokkur hans myndi missa meirihluta á þingi landsins í kosningum, þá fyrirskipaði hann liðsmönnum sínum að framkvæma kosningasvik. Þegar hin svikulu úrslit voru kynnt sauð upp úr milli stjórnar og stjórnarandstæðinga. Það sem fylgdi var smánarblettur á þessu annars friðsæla ríki, þar sem ættbálkar börðust á banaspjótum og drápu fólk af öðrum ættbálkum. Næstu 4 mánuðir einkenndust af múgæsing, eyðileggingu og morðum. Það var ekki fyrr en alþjóðasamfélagið, undir forystu Kofi Annan, fyrrum aðalritara SÞ, að friðarsamkomulag var í höfn og stríðandi fylkingar hættu að ráðast hvor á aðra.

Ég hef á undanförnum árum heimsótt Kenía oft, bæði fyrir þennan tíma, á meðan á átökunum stóð og eins eftir að átökunum linnti. Fyrir mig var erfitt að sjá land sem ég unni mikið hrapa svo fljótt niður í nokkuð sem einungis er hægt að kalla borgarastríð. Mannskepnan virðist af einhverjum ástæðum eiga svo auðvelt með að ráðast á meðborgara sína ef eitthað bjátar á. Kannski er það vegna þess að það er auðveldara að berjast en að semja um frið.

En í heimsóknum mínum til Kenía eftir þessa atburði hef ég orðið var við breytt hugarfar meðal íbúa Kenía. Þeir áttuðu sig á því að stjórnmálamenn landsins höfðu misnotað íbúana og fengið þá til að ráðast á nágranna sína, einungis vegna þess að þeir væru af öðrum ættbálki en þeir sjálfir. Gamlar deilur um landsvæði og annað voru allt í einu rifnar upp og nýttar til að fá fólk upp á móti hvort öðru. Í dag segir fólkið hins vegar "ALDREI AFTUR":


  • ALDREI AFTUR ætlum við að láta stjórnmálamenn draga okkur út í óeirðir þar sem við ráðumst á nágranna okkar og samlanda
  • ALDREI AFTUR ætlum við að láta múgæsing orsaka það að við getum ekki lifað í sátt og samlyndi óháð ættbálkum
  • ALDREI AFTUR ætlum við að fara niður á það stig að hætta að hugsa og láta aðra segja okkur hvað við eigum að hugsa
Þessi sami hugsunarháttur hefur orsakað opnara samfélag og meiri gagnrýni á störf þeirra sem eru "fulltrúaar þjóðarinnar". Að sjálfsögðu eiga þeir langt í land, enda er lýðræði einungis nýtt hugtak fyrir þeim í samanburði við okkar löngu sögu lýðræðis en ég held að við getum líka lært af þeim.

Við á Íslandi þurfum að segja:

  • ALDREI AFTUR eigum við að láta stjórnmálamenn eða viðskiptajöfra telja okkur trú um að við séum svo sérstök að almennar reglur og gildi eigi ekki við um okkur.
  • ALDREI AFTUR eigum við að láta glepjast af gylliboðum um ódýrt fjármagn sem varla þurfi að borga til baka því það sé á svo góðum kjörum og þar með gleyma að lesa smáa letrið um allar áhætturnar.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja það að stjórnmálamenn hugsi um eigið skinn eða að koma vinum, vandamönnum eða samflokksmönnum í valdamiklar stöður. Stjórnmálamenn eiga að vera okkar fulltrúar - okkar allra.
  • ALDREI AFTUR eigum við að láta múgæsing orsaka það að við ráðumst hvort á annað, á lögregluna eða stjórnmálamenn - ekkert vandamál verður leyst með átökum, íkveikjum eða slettum á málningu. Við lifum í þjóðfélagi þar sem friðsöm mótmæli, beittir pennar og rökræður hafa virkað í þúsund ár.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja að þeir sem minna meiga sín þurfi að beri byrgðar eftir að áhættusæknir fjármálaspekúlantar tapa öllu. Til þess þurfum við að breyta regluverki, eftirliti og leikreglum á markaðinum.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja að stjórnmálamenn geri ekki annað en að skjóta á hvorn annan í stað þess að setjast niður og ræða hlutina. Það skiptir engu í hvaða flokki þú ert, það geta allir fundið samleið út úr ógöngunum ef allir aðilar hafa það að markmiði að gera þetta land byggilegt aftur.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja það að okkar menntaða fólk yfirgefi landið í stórum stíl í leit að betri tíð annars staðar. Í staðin eigum við að vinna saman að því að fá fjárfestingu inn í landið og styðja við bakið á þeim sem eru að reyna fyrir sér í nýsköpun. Við þurfum að vera opin fyrir öllum valkostum og ekki einblína á eina tegund fjárfestingar eða útiloka aðrar vegna þess hvaðan þær koma eða hvers eðlis þær eru.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja að fulltrúar landsins séu ekki tilbúnir að vera leiðtogar þjóðarinnar allrar. Það að leiða fólk áfram þýðir að hlusta á það og hjálpa því að komast í gegnum erfiðleikana. Það að stjórna fólki er að segja því fyrir verkum. Við þurfum leiðtoga en ekki stjórnendur.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja málþóf á okkar löggjafarþingi. Ef stjórnmálamenn geta ekki rætt málin af viti við hvorn annan á vitrænan hátt, þá eiga þeir ekki heima á þinginu. Þeir sem rausa og rausa í stað þess að finna lausnir geta farið niður á Ægissíðu í næsta hauststormi og rausað við Kára Kuldabola um það af hverju hann sé að blása þegar við viljum frekar logn.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja að á Íslandi skuli fyrirfinnast fátækt. Það eru nægir peningar til í landinu, en þeir eru einfaldlega ekki nýttir á réttan hátt. Opnum upp allt bókhald ríkisins svo hægt sé að sjá nákvæmlega hvert allir peningar fara og þá geta talnaspekingar á auðveldan hátt fundið hvar má spara. Það þýðir ekkert að láta embættismenn um að reyna að finna sparnaðarleiðir, því þá horfa þeir of mikið í eigin barm.
  • ALDREI AFTUR eigum við að stefna í hættu okkar ástkæra landi, sem staðið hefur af sér harðneskju náttúrunnar og arðrán nýlenduherrana. 

Það væri auðvelt að halda áfram með mörg önnur aðtriði sem ALDREI AFTUR eiga að viðgangast í jafn þróuðu lýðræðisríki og Íslandi. Nú er þörf á alvöru leiðtogum, aðilum sem eru tilbúnir að gefa allt fyrir okkar ástkæra land og okkar mögnuðu þjóð, leiðtogum sem eru tilbúnir að leiða þessa þjóð aftur inn í tímabil farsældar, leiðtogum sem eru tilbúnir að láta af flokkadráttum og tækifærispólitík, leiðtogum sem eru tilbúnir að fara nýjar leiðir til þess að bæta kjör okkar og takast á við ástandið, leiðtogum sem hugsa fyrst og aðra og svo um sjálfa sig, leiðtoga sem þjóðin stendur á bakvið en gefst ekki upp á.

Við þurfum leiðtoga sem eru tilbúnir að segja ALDREI AFTUR, ALDREI AFTUR, ALDREI AFTUR. 

Sunday, April 10, 2011

Hvert skal stefna?

Þessa dagana eru íslendingar að sökkva sér niður í enn eitt hyldýpið. Í þetta sinn er það ekki hyldýpi skulda sem við erum að sökkva okkur ofan í heldur hyldýpi vonleysis og rifrildis. Á meðan stjórnmálamenn spá í hvernig þeir geta nýtt sér nýafstaðnar kosningar til þess að auka enn við áhrif sín og völd þá er almenningur að sökkva sér ofan í tal um það hvernig allt sé að fara fjandans til eða það hvernig við stollta þjóðin á hjara veraldar ætlum okkur að bjóða restinni af heiminum byrginn.

Og hvert leiðir þetta allt okkur? Erum við á leið á hausinn aftur? Reddast þetta allt? Er kominn tími til að yfirgefa skerið og láta þann sem fer síðastann slökkva ljósið?

Við Íslendingar höfum alltaf verið dugleg að láta skoðanir okkar í ljós, enda alin upp við lýðræði frá því að land byggðist. Það að geta orðið haldið úti okkar eigin málgagni í gegnum netið eins og þennan blogg gefur okkur enn meira tækifæri til þess að láta skoðanir okkar í ljós. En við þurfum öll að muna að orð bera ábyrgð og það sem við segjum getur haft áhrif á aðra og skapað afleiðingar sem við erum ekki öll meðvituð um.

Rétt eins og börn á strönd norð-austur Japan munu í mörg ár forðast sjóinn og verða hrædd í hvert sinn sem jörð skelfur, þá erum við að ala upp kynslóð barna sem heldur að Ísland sé vonlaust. Þar sé alltaf kreppa, allt að fara á hausinn og allir þeir sem reka fyrirtæki eru glæpamenn sem eiga að enda í fangelsi. Sálrænt ástand þessarar yngstu kynslóðar fer snöggt versnandi og fleiri og fleiri leita sér huggunar í vímuefnum.

Það er voða auðvelt að mála upp mynd volæðis og spillingar. Það er líka voða auðvelt að segja að þetta sé allt einhverjum öðrum að kenna. Það er voða auðvelt að segja já og alveg jafn auðvelt að segja nei. Það er voða auðvelt að horfa alltaf til baka og kenna hinum og þessum um allt saman. Að sjálfsögðu áttum við sjálf ekki neinn þátt í því sem gerðist. Við keyptum ekki bíla sem við höfðum ekki efni á. Við keyptum ekki hús sem voru of dýr fyrir okkur. Við eyddum ekki um efni fram og settum allt á raðgreiðslur. Við tókum ekki gylliboðum um hitt og þetta sem við þurftum ekki á að halda. Ekkert okkar tók þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Nei, við vorum öll saklaus af þeim múgæsing sem greip um sig á Íslandi á undanförnum áratug.

Í desember síðastliðnum skrifaði Sölvi Tryggvason pistil sem nefndist Hrun hugarfars þar sem hann benti okkur Íslendingum á það hversu gott við í raun höfum það. Þau okkar sem hafa ferðast mikið erlendis og eytt tíma í fátækrahverfum þriðja heimsins eða á hamfarasvæðum, vitum það að við Íslendingar búum við mikla velsæld. Við kvörtum yfir hinu og þessu, en það er ekki fyrr en þú hittir fólk sem lifir á undir $2 á dag, á sér ekki þak yfir höfuðið, hefur ekki aðgang að hreinu vatni og fer svangt að sofa á hverjum degi sem þú áttar þig í raun á þeim ótrúlegu lífsgæðum sem við búum við.

Ég og fjölskyldan hittum kunningja á förnum vegi um daginn. Hann var einn af þessum sem hafði "lennt í hruninu" og skrifað mikið á vefi eins og Facebook um hvað allt væri nú slæmt. Þegar við spurðum hann hvernig hlutirnir væru sagði hann að húsið sem þau hefðu verið að byggja væri enn ekki tilbúið að það væri veðsett upp í topp ("bankinn ætti það"). Húsið sem þau höfðu átt hefði bankinn hirt af þeim upp í skuldir. Þau byggju í bílskúrnum heima hjá tengdaforeldrum hans og hann ynni öll kvöld í húsinu við að gera það fokhellt svo þau gætu flutt inn sem fyrst. Mitt svar til hans var "nú þetta er bara hjá þér eins og allir gerðu á Íslandi hér áður fyrr".

Það er nefnilega ótrúlegt hvað við erum fljót að gleyma. Undanfarnar kynslóðir urðu að vinna mikið og lengi til þess að eignast hús yfir höfuðið. Fólk bjó heima hjá foreldrum og vann svo sjálft við að byggja húsin. Það flutti inn í þau fokheld (eða jafnvel fyrr) og notaði svo næstu 10 árin í að gera þau tilbúin. En þetta virtist gleymast voða fljótt á þeim tímum sem það þótti ekkert tiltökumál að hafa 10 Pólverja í vinnu við að byggja húsið þitt og hafa svo allt tipp topp og parketlagt inni í því þegar þú fluttir inn. Á meðan bjóstu í húsinu sem þú áttir fyrir og hafðir svo bara áhyggjur af því að selja það þegar þú varst fluttur inn í nýja húsið.

En hvernig getum við, þessi litla þjóð, breytt þessu hugarfari okkar og unnið okkur út úr þessum hjólförum sem við virðumst vera föst í?

Höfundurinn Robin Sharma, sem einna þekktastur er fyrir bókina Munkurinn sem seldi Ferrariinn sinn, sagði eitt sinn að óánægja opni oft dyr inn í alvöru breytingar. Þetta á við bæði í okkar eigin lífi eins og hjá heilli þjóð. Þeir sem eiga í baráttu við aukakílóin kannast við þetta. Það er ekki fyrr en óánægjan hefur náð ákveðnu hámarki að þú virkilega tekur þér tak og breytir um lífsstíl. Er kannski er kominn tími til þess að við Íslendingar breytum um lífstíl?

Robin bennti einnig á að það sé eitt mesta hugrekkið sem hægt sé að sýna að brjóta upp hugarfar gærdagsins og horfa til framtíðar og nýrra hugmynda. Við Íslendingar eru vel menntuð þjóð sem býr við góðan kost á gjöfulu og fallegu landi. Við eigum skapandi og hugmyndaríkt fólk sem sér ekki böl út úr öllu sem er að gerast heldur sér tækifæri í breyttu umhverfi. Eitthvert besta dæmið um þetta eru hönnuðurnir okkar sem hafa opnað verslanir út um allt sem selja föt og gripi til ferðamanna. Þetta fólk sá atvinnuleysið sem tækifæri til þess að skapa eitthvað nýtt og láta gamla drauma rætast. Hvað ætli myndi gerast hér á landi ef að við hugsuðum öll á þennan veg?

En hvað með fjárglæframennina, IceSave, landsdóm og allt hitt sem við höfum verið að velta okkur upp úr undanfarin tvö og hálft misseri? Jú auðvitað þarf að takast á við mistök fortíðarinnar, við getum ekki lifað í þeim draumaheimi að ekkert hafi gerst. En þurfum við að láta allar stundir snúast í kringum þessi mál?

Ef horft er á Facebook og blogg skrif landsmanna mætti maður halda að þetta sé það eina sem er að gerast á Íslandi. Hér áður fyrr ræddi fólk um veðrið þegar það hittist og enn þann dag í dag má heyra einstakan Íslending spyrja landa sinn sem býr erlendis "og hvernig er veðrið hjá ykkur?". Það eru hins vegar mun fleiri sem fara að röfla um kreppuna, rétt eins og þeir gætu breytt því að hún gerðist, rétt eins og þeir geti haft einhver bein áhrif á það hvað skilast mikið inn upp í skuldir Landsbankans.

Vitur maður sagði eitt sinn "Það þýðir ekkert að reyna að breyta fortíðinni, þú hefur álíka mikil áhrif á hana eins og þú hefur á veðrið. Eina sem þú getur gert er að læra af fortíðinni, rétt eins og þú lærir að klæða þig samkvæmt veðri".

Svo það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hætta að lifa í fortíðinni og fara að horfa fram á við. Hættum að rífast yfir því hverjum allt sé að kenna. Við erum með her aðila í að rannsaka hvað gerðist. Að minnsta kosti hluti þeirra sem gerðu eitthvað rangt munu verða látnir gjalda fyrir gjörðir sínar. Lærum af mistökunum en hættum að reyna að breyta því sem gerðist. Látum sérfræðingana um að sækja fólk til saka og treystum þeim til þess að sinna starfi sínu vel. Þetta mun allt taka lengri tíma en við reiknum með og á meðan getum við ekki beðið og einblínt aftur á við.

Það er kominn tími fyrir okkur Íslendinga að hætta þessu þrasi öllu saman. Það er kominn tími fyrir okkur til að snúa bökum saman og horfa fram á við. Það er kominn tími fyrir okkur að byggja landið upp á nýtt, með nýjum siðferðislegum viðmiðum og nýjum markmiðum. Við þurfum að hafa lærdóm fortíðarinnar í fararteskinu en ekki láta hana sliga okkur niður og hefta okkur frá því að mynda hér nýtt og öflugt samfélag, samfélag sem hefur þroskast á því að ganga í gegnum þessa erfiðleika sem hafa hrjáð okkur.

En hvað með skuldirnar, niðurskurðinn, skattahækkanirnar og allt hitt sem við virðumst geta barmað okkur yfir endalaust. Jú skuldir þarf að greiða og það getur leitt til þess að stundum þarf að taka erfiðar ákvarðanir sem leiða til þess að lífskjör okkar skerðist. En í stað þess að líta á hlutina sem ógnanir þá er hægt að líta á þær sem tækifæri.

Þessa dagana býr fólk í Japan, sér í lagi í Tokyo við það að ekki er til nægilegt rafmagn í landinu eftir hamfarirnar miklu sem þar hafa dunið á. Yfirvöld lýstu því yfir að nauðsynlegt yrði að skammta rafmagn. Íbúar Tokyo tóku sig hins vegar saman og fóru að spara rafmagn. Rúllustigar eru margir hverjir ekki í gangi, lýsing er minni en annars staðar, hótel spara í þvotti, fólk slekkur ljósin þegar það fer að sofa. Allt hefur þetta leitt til þess að ekki hefur þurft að skammta rafmagnið eins og talið var að þyrfti að gera.

Þegar rafmagnsverð þarf að hækka tímabundið vegna óstjórnar undanfarinna ára er það þá ekki tækifæri fyrir okkur Íslendinga að læra að spara þessa auðlind eins og aðrar? Er þetta ekki tíminn til þess að kenna börnunum okkar að slökkva ljósin þegar þau eru ekki í herberginu. Er þetta ekki tíminn til þess að hugsa út í það hvað rafmagnstækin á heimilinu eyða? Þegar ólíukreppan mikla skall á um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar leiddi það af sér sparneytnari bíla og hraðatakmarkanir á vegum. Þarna skapaði viss ógn tækifæri og við erum að sjá svipað gerast núna þegar ólíuverð hefur farið aftur upp úr öllu valdi.

En hvað með niðurskurð og skatta - er ekki eina lausnin sú að skera niður alla þjónustu og hækka skatta. Jú ef við erum einungis tilbúin að horfa á lausnir fortíðarinnar þá er það eina leiðin. Þegar ég var að alast upp kunnu stjórnmálamenn bara tvær leiðir til að auka tekjur ríkissjóðs. Önnur var að fella gengið og hin var að hækka skatta á áfengi, tóbak og eldsneyti.

En hvað myndi gerast ef að í stað þess að nota aðferðafræði fortíðarinnar þá myndum við nýta þessa erfiðleika til þess að finna nýjar leiðir til þess að takast á við hlutina? Hvað ef við horfðum á það hvar við séum að eyða um efni fram sem þjóð? Það er dýrt að vera aðeins 300 þúsund manns í miðju Atlandshafi. Samt teljum við okkur geta boðið upp á alla sömu þjónustu og 300 milljón manna samfélag. Suma þjónustu verðum við einfaldlega að sætta okkur við að sækja þurfi erlendis (eins og við gerum t.d. í dag með hluti eins og líffæraflutning o.fl.) og fyrir aðra hluti þurfum við kannski að hugsa nýjar leiðir til þess að ná fram sömu hlutum á ódýrari hátt, t.d. með hjálp tækninýjunga.

En hvað með atvinnuleysið? Það er jú engin leið út úr því nema stórar fjárfestingar eins og álver og vegaframkvæmdir. Gamli málshátturinn "Neyðin kennir naktri konu að spinna" er nokkuð sem við ættum að hafa í huga þegar kemur að þessu. Í stað þess að gefast upp og segja við fólk sem er á atvinnuleysisbótum að þetta reddist allt þegar kreppunni lýkur, væri nú ekki frekar ráð að reyna að beisla sköpun og frumkvæði þessa fólks. Í stað þess að leggja hundruðir milljóna í tvöföldun vegar, sem við getum alveg lifað án (við erum það fá að þó það taki þig 5 mín lengur að keyra þessa vegalengd af því þú getur ekki tekið framúr að vild þá borgar þetta sig alls ekki) hvernig væri þá að nýta þennan sama pening í að styrkja þetta fólk til þess að taka fyrstu skrefin í nýrri sköpun eða í að stofna ný fyrirtæki sem geta orðið stöndug þegar fram á líður.

Það er þessi nýja hugsun sem þarf að ráða ríkjum á Íslandi framtíðarinnar. Hugsun sem horfir til framtíðar með reynslu fortíðarinnar í farteskinu. Hugsun sem sættir sig við góð lífskjör en krefst ekki bestu lífskjara í heimi, langt umfram það sem við höfum efni á. Hugsun sem tryggir að þeir sem minna meiga sín geta lifað sómasamlegu lífi þrátt fyrir mistök fortíðarinnar. Hugsun sem tryggir ungu fólki í dag lífsýn möguleika og framtíðar en ekki vonleysis. Hugsun sem byggð er á þeim gildum sem forfeður okkar byggðu þetta land og við stofnuðum elsta lýðræðisríki heims í kringum.

Á köldum vetrardegi þar sem mótmæli fyrir framan Alþingi höfðu stigmagnast og ástandið á Íslandi var stutt frá því að breytast í það sem við sjáum gerast við Miðjarðarhaf þessa dagana, þá var það örlítill hlutur sem breytti íslensku byltingunni. Með því að hvetja alla þá sem vildu einblína á friðsamleg mótmæli til þess að bera eitthvað appelsínugult, þá breyttust mótmælin á einnu nóttu aftur yfir í friðsamlega en jafnframt háværa kröfu um breytingu. Þeir sem vildu ná þessari breytingu fram á friðsamlegan hátt voru í miklu meirihluta og raddir þessara fáu sem vildu átök drukknuðu.

Nú er kominn tími fyrir aðra stefnubreytingu meðal Íslendinga. Ef þú ert tilbúin(n) að horfa til framtíðar og byggja upp nýtt þjóðfélag þar sem við látum virðingu, sköpun, heiðarleika og nægjusemi ráða ríkjum þá hvet ég þig til að hætta þessari endalausu niðurrifi, hvort sem það er í rituðu máli eða töluðu og byjra að horfa til framtíðarinnar. Hættu að barma þér yfir hversu slæmt allt er og hugsaðu frekar um hversu gott allt getur orðið ef við snúum bökum saman og vinnum að betra þjóðfélagi.

Þeir sem kosnir hafa verið til þess að leiða þessa þjóð og þeir sem sitja á áhrifastöðum innan samfélags okkars þurfa sérstaklega að taka þessi skilaboð til sín. Eruð þið til í að hætta að lifa í fortíðinni? Eruð þið til í að finna nýjar og skapanir lausnir á vandamálunum sem við glímum við? Eruð þið tilbúin að snúa bökum saman óháð flokkslínum og vinna saman að betri framtíð? Eruð þið til í að láta eigin völd og áhrif lönd og leið og í stað þess einblína á nýtt og skapandi samfélag? Eruð þið tilbúin til að vinna fyrir þjóðina alla en ekki bara þá kjósendur sem munu tryggja ykkur endurkosningu næst? Ef þið svöruðuð ekki öllum þessum spurningum jákvætt, þá er tími fyrir ykkur að láta aðra um að takst á við þetta erfiða verkefni.

Þessir erfiðleikar eru tækifæri okkar Íslendinga til þess að byggja upp nýtt þjóðfélag þar sem sköpungleðin og nægjusemin er við völd en ekki draugar fortíðarinnar og lífsgæðakapphlaupið. Við höfum tvo valkosti í stöðunni, annar er að horfa ofan í hyldýpið og stökkva um leið í það og gefast upp. Hinn er að í sameiningu finna byggingarefni og smíða brú yfir hyldýpið og halda svo áfram göngu okkar.

Hvert ætlar þú að stefna?