Sunday, April 10, 2011

Hvert skal stefna?

Þessa dagana eru íslendingar að sökkva sér niður í enn eitt hyldýpið. Í þetta sinn er það ekki hyldýpi skulda sem við erum að sökkva okkur ofan í heldur hyldýpi vonleysis og rifrildis. Á meðan stjórnmálamenn spá í hvernig þeir geta nýtt sér nýafstaðnar kosningar til þess að auka enn við áhrif sín og völd þá er almenningur að sökkva sér ofan í tal um það hvernig allt sé að fara fjandans til eða það hvernig við stollta þjóðin á hjara veraldar ætlum okkur að bjóða restinni af heiminum byrginn.

Og hvert leiðir þetta allt okkur? Erum við á leið á hausinn aftur? Reddast þetta allt? Er kominn tími til að yfirgefa skerið og láta þann sem fer síðastann slökkva ljósið?

Við Íslendingar höfum alltaf verið dugleg að láta skoðanir okkar í ljós, enda alin upp við lýðræði frá því að land byggðist. Það að geta orðið haldið úti okkar eigin málgagni í gegnum netið eins og þennan blogg gefur okkur enn meira tækifæri til þess að láta skoðanir okkar í ljós. En við þurfum öll að muna að orð bera ábyrgð og það sem við segjum getur haft áhrif á aðra og skapað afleiðingar sem við erum ekki öll meðvituð um.

Rétt eins og börn á strönd norð-austur Japan munu í mörg ár forðast sjóinn og verða hrædd í hvert sinn sem jörð skelfur, þá erum við að ala upp kynslóð barna sem heldur að Ísland sé vonlaust. Þar sé alltaf kreppa, allt að fara á hausinn og allir þeir sem reka fyrirtæki eru glæpamenn sem eiga að enda í fangelsi. Sálrænt ástand þessarar yngstu kynslóðar fer snöggt versnandi og fleiri og fleiri leita sér huggunar í vímuefnum.

Það er voða auðvelt að mála upp mynd volæðis og spillingar. Það er líka voða auðvelt að segja að þetta sé allt einhverjum öðrum að kenna. Það er voða auðvelt að segja já og alveg jafn auðvelt að segja nei. Það er voða auðvelt að horfa alltaf til baka og kenna hinum og þessum um allt saman. Að sjálfsögðu áttum við sjálf ekki neinn þátt í því sem gerðist. Við keyptum ekki bíla sem við höfðum ekki efni á. Við keyptum ekki hús sem voru of dýr fyrir okkur. Við eyddum ekki um efni fram og settum allt á raðgreiðslur. Við tókum ekki gylliboðum um hitt og þetta sem við þurftum ekki á að halda. Ekkert okkar tók þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Nei, við vorum öll saklaus af þeim múgæsing sem greip um sig á Íslandi á undanförnum áratug.

Í desember síðastliðnum skrifaði Sölvi Tryggvason pistil sem nefndist Hrun hugarfars þar sem hann benti okkur Íslendingum á það hversu gott við í raun höfum það. Þau okkar sem hafa ferðast mikið erlendis og eytt tíma í fátækrahverfum þriðja heimsins eða á hamfarasvæðum, vitum það að við Íslendingar búum við mikla velsæld. Við kvörtum yfir hinu og þessu, en það er ekki fyrr en þú hittir fólk sem lifir á undir $2 á dag, á sér ekki þak yfir höfuðið, hefur ekki aðgang að hreinu vatni og fer svangt að sofa á hverjum degi sem þú áttar þig í raun á þeim ótrúlegu lífsgæðum sem við búum við.

Ég og fjölskyldan hittum kunningja á förnum vegi um daginn. Hann var einn af þessum sem hafði "lennt í hruninu" og skrifað mikið á vefi eins og Facebook um hvað allt væri nú slæmt. Þegar við spurðum hann hvernig hlutirnir væru sagði hann að húsið sem þau hefðu verið að byggja væri enn ekki tilbúið að það væri veðsett upp í topp ("bankinn ætti það"). Húsið sem þau höfðu átt hefði bankinn hirt af þeim upp í skuldir. Þau byggju í bílskúrnum heima hjá tengdaforeldrum hans og hann ynni öll kvöld í húsinu við að gera það fokhellt svo þau gætu flutt inn sem fyrst. Mitt svar til hans var "nú þetta er bara hjá þér eins og allir gerðu á Íslandi hér áður fyrr".

Það er nefnilega ótrúlegt hvað við erum fljót að gleyma. Undanfarnar kynslóðir urðu að vinna mikið og lengi til þess að eignast hús yfir höfuðið. Fólk bjó heima hjá foreldrum og vann svo sjálft við að byggja húsin. Það flutti inn í þau fokheld (eða jafnvel fyrr) og notaði svo næstu 10 árin í að gera þau tilbúin. En þetta virtist gleymast voða fljótt á þeim tímum sem það þótti ekkert tiltökumál að hafa 10 Pólverja í vinnu við að byggja húsið þitt og hafa svo allt tipp topp og parketlagt inni í því þegar þú fluttir inn. Á meðan bjóstu í húsinu sem þú áttir fyrir og hafðir svo bara áhyggjur af því að selja það þegar þú varst fluttur inn í nýja húsið.

En hvernig getum við, þessi litla þjóð, breytt þessu hugarfari okkar og unnið okkur út úr þessum hjólförum sem við virðumst vera föst í?

Höfundurinn Robin Sharma, sem einna þekktastur er fyrir bókina Munkurinn sem seldi Ferrariinn sinn, sagði eitt sinn að óánægja opni oft dyr inn í alvöru breytingar. Þetta á við bæði í okkar eigin lífi eins og hjá heilli þjóð. Þeir sem eiga í baráttu við aukakílóin kannast við þetta. Það er ekki fyrr en óánægjan hefur náð ákveðnu hámarki að þú virkilega tekur þér tak og breytir um lífsstíl. Er kannski er kominn tími til þess að við Íslendingar breytum um lífstíl?

Robin bennti einnig á að það sé eitt mesta hugrekkið sem hægt sé að sýna að brjóta upp hugarfar gærdagsins og horfa til framtíðar og nýrra hugmynda. Við Íslendingar eru vel menntuð þjóð sem býr við góðan kost á gjöfulu og fallegu landi. Við eigum skapandi og hugmyndaríkt fólk sem sér ekki böl út úr öllu sem er að gerast heldur sér tækifæri í breyttu umhverfi. Eitthvert besta dæmið um þetta eru hönnuðurnir okkar sem hafa opnað verslanir út um allt sem selja föt og gripi til ferðamanna. Þetta fólk sá atvinnuleysið sem tækifæri til þess að skapa eitthvað nýtt og láta gamla drauma rætast. Hvað ætli myndi gerast hér á landi ef að við hugsuðum öll á þennan veg?

En hvað með fjárglæframennina, IceSave, landsdóm og allt hitt sem við höfum verið að velta okkur upp úr undanfarin tvö og hálft misseri? Jú auðvitað þarf að takast á við mistök fortíðarinnar, við getum ekki lifað í þeim draumaheimi að ekkert hafi gerst. En þurfum við að láta allar stundir snúast í kringum þessi mál?

Ef horft er á Facebook og blogg skrif landsmanna mætti maður halda að þetta sé það eina sem er að gerast á Íslandi. Hér áður fyrr ræddi fólk um veðrið þegar það hittist og enn þann dag í dag má heyra einstakan Íslending spyrja landa sinn sem býr erlendis "og hvernig er veðrið hjá ykkur?". Það eru hins vegar mun fleiri sem fara að röfla um kreppuna, rétt eins og þeir gætu breytt því að hún gerðist, rétt eins og þeir geti haft einhver bein áhrif á það hvað skilast mikið inn upp í skuldir Landsbankans.

Vitur maður sagði eitt sinn "Það þýðir ekkert að reyna að breyta fortíðinni, þú hefur álíka mikil áhrif á hana eins og þú hefur á veðrið. Eina sem þú getur gert er að læra af fortíðinni, rétt eins og þú lærir að klæða þig samkvæmt veðri".

Svo það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hætta að lifa í fortíðinni og fara að horfa fram á við. Hættum að rífast yfir því hverjum allt sé að kenna. Við erum með her aðila í að rannsaka hvað gerðist. Að minnsta kosti hluti þeirra sem gerðu eitthvað rangt munu verða látnir gjalda fyrir gjörðir sínar. Lærum af mistökunum en hættum að reyna að breyta því sem gerðist. Látum sérfræðingana um að sækja fólk til saka og treystum þeim til þess að sinna starfi sínu vel. Þetta mun allt taka lengri tíma en við reiknum með og á meðan getum við ekki beðið og einblínt aftur á við.

Það er kominn tími fyrir okkur Íslendinga að hætta þessu þrasi öllu saman. Það er kominn tími fyrir okkur til að snúa bökum saman og horfa fram á við. Það er kominn tími fyrir okkur að byggja landið upp á nýtt, með nýjum siðferðislegum viðmiðum og nýjum markmiðum. Við þurfum að hafa lærdóm fortíðarinnar í fararteskinu en ekki láta hana sliga okkur niður og hefta okkur frá því að mynda hér nýtt og öflugt samfélag, samfélag sem hefur þroskast á því að ganga í gegnum þessa erfiðleika sem hafa hrjáð okkur.

En hvað með skuldirnar, niðurskurðinn, skattahækkanirnar og allt hitt sem við virðumst geta barmað okkur yfir endalaust. Jú skuldir þarf að greiða og það getur leitt til þess að stundum þarf að taka erfiðar ákvarðanir sem leiða til þess að lífskjör okkar skerðist. En í stað þess að líta á hlutina sem ógnanir þá er hægt að líta á þær sem tækifæri.

Þessa dagana býr fólk í Japan, sér í lagi í Tokyo við það að ekki er til nægilegt rafmagn í landinu eftir hamfarirnar miklu sem þar hafa dunið á. Yfirvöld lýstu því yfir að nauðsynlegt yrði að skammta rafmagn. Íbúar Tokyo tóku sig hins vegar saman og fóru að spara rafmagn. Rúllustigar eru margir hverjir ekki í gangi, lýsing er minni en annars staðar, hótel spara í þvotti, fólk slekkur ljósin þegar það fer að sofa. Allt hefur þetta leitt til þess að ekki hefur þurft að skammta rafmagnið eins og talið var að þyrfti að gera.

Þegar rafmagnsverð þarf að hækka tímabundið vegna óstjórnar undanfarinna ára er það þá ekki tækifæri fyrir okkur Íslendinga að læra að spara þessa auðlind eins og aðrar? Er þetta ekki tíminn til þess að kenna börnunum okkar að slökkva ljósin þegar þau eru ekki í herberginu. Er þetta ekki tíminn til þess að hugsa út í það hvað rafmagnstækin á heimilinu eyða? Þegar ólíukreppan mikla skall á um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar leiddi það af sér sparneytnari bíla og hraðatakmarkanir á vegum. Þarna skapaði viss ógn tækifæri og við erum að sjá svipað gerast núna þegar ólíuverð hefur farið aftur upp úr öllu valdi.

En hvað með niðurskurð og skatta - er ekki eina lausnin sú að skera niður alla þjónustu og hækka skatta. Jú ef við erum einungis tilbúin að horfa á lausnir fortíðarinnar þá er það eina leiðin. Þegar ég var að alast upp kunnu stjórnmálamenn bara tvær leiðir til að auka tekjur ríkissjóðs. Önnur var að fella gengið og hin var að hækka skatta á áfengi, tóbak og eldsneyti.

En hvað myndi gerast ef að í stað þess að nota aðferðafræði fortíðarinnar þá myndum við nýta þessa erfiðleika til þess að finna nýjar leiðir til þess að takast á við hlutina? Hvað ef við horfðum á það hvar við séum að eyða um efni fram sem þjóð? Það er dýrt að vera aðeins 300 þúsund manns í miðju Atlandshafi. Samt teljum við okkur geta boðið upp á alla sömu þjónustu og 300 milljón manna samfélag. Suma þjónustu verðum við einfaldlega að sætta okkur við að sækja þurfi erlendis (eins og við gerum t.d. í dag með hluti eins og líffæraflutning o.fl.) og fyrir aðra hluti þurfum við kannski að hugsa nýjar leiðir til þess að ná fram sömu hlutum á ódýrari hátt, t.d. með hjálp tækninýjunga.

En hvað með atvinnuleysið? Það er jú engin leið út úr því nema stórar fjárfestingar eins og álver og vegaframkvæmdir. Gamli málshátturinn "Neyðin kennir naktri konu að spinna" er nokkuð sem við ættum að hafa í huga þegar kemur að þessu. Í stað þess að gefast upp og segja við fólk sem er á atvinnuleysisbótum að þetta reddist allt þegar kreppunni lýkur, væri nú ekki frekar ráð að reyna að beisla sköpun og frumkvæði þessa fólks. Í stað þess að leggja hundruðir milljóna í tvöföldun vegar, sem við getum alveg lifað án (við erum það fá að þó það taki þig 5 mín lengur að keyra þessa vegalengd af því þú getur ekki tekið framúr að vild þá borgar þetta sig alls ekki) hvernig væri þá að nýta þennan sama pening í að styrkja þetta fólk til þess að taka fyrstu skrefin í nýrri sköpun eða í að stofna ný fyrirtæki sem geta orðið stöndug þegar fram á líður.

Það er þessi nýja hugsun sem þarf að ráða ríkjum á Íslandi framtíðarinnar. Hugsun sem horfir til framtíðar með reynslu fortíðarinnar í farteskinu. Hugsun sem sættir sig við góð lífskjör en krefst ekki bestu lífskjara í heimi, langt umfram það sem við höfum efni á. Hugsun sem tryggir að þeir sem minna meiga sín geta lifað sómasamlegu lífi þrátt fyrir mistök fortíðarinnar. Hugsun sem tryggir ungu fólki í dag lífsýn möguleika og framtíðar en ekki vonleysis. Hugsun sem byggð er á þeim gildum sem forfeður okkar byggðu þetta land og við stofnuðum elsta lýðræðisríki heims í kringum.

Á köldum vetrardegi þar sem mótmæli fyrir framan Alþingi höfðu stigmagnast og ástandið á Íslandi var stutt frá því að breytast í það sem við sjáum gerast við Miðjarðarhaf þessa dagana, þá var það örlítill hlutur sem breytti íslensku byltingunni. Með því að hvetja alla þá sem vildu einblína á friðsamleg mótmæli til þess að bera eitthvað appelsínugult, þá breyttust mótmælin á einnu nóttu aftur yfir í friðsamlega en jafnframt háværa kröfu um breytingu. Þeir sem vildu ná þessari breytingu fram á friðsamlegan hátt voru í miklu meirihluta og raddir þessara fáu sem vildu átök drukknuðu.

Nú er kominn tími fyrir aðra stefnubreytingu meðal Íslendinga. Ef þú ert tilbúin(n) að horfa til framtíðar og byggja upp nýtt þjóðfélag þar sem við látum virðingu, sköpun, heiðarleika og nægjusemi ráða ríkjum þá hvet ég þig til að hætta þessari endalausu niðurrifi, hvort sem það er í rituðu máli eða töluðu og byjra að horfa til framtíðarinnar. Hættu að barma þér yfir hversu slæmt allt er og hugsaðu frekar um hversu gott allt getur orðið ef við snúum bökum saman og vinnum að betra þjóðfélagi.

Þeir sem kosnir hafa verið til þess að leiða þessa þjóð og þeir sem sitja á áhrifastöðum innan samfélags okkars þurfa sérstaklega að taka þessi skilaboð til sín. Eruð þið til í að hætta að lifa í fortíðinni? Eruð þið til í að finna nýjar og skapanir lausnir á vandamálunum sem við glímum við? Eruð þið tilbúin að snúa bökum saman óháð flokkslínum og vinna saman að betri framtíð? Eruð þið til í að láta eigin völd og áhrif lönd og leið og í stað þess einblína á nýtt og skapandi samfélag? Eruð þið tilbúin til að vinna fyrir þjóðina alla en ekki bara þá kjósendur sem munu tryggja ykkur endurkosningu næst? Ef þið svöruðuð ekki öllum þessum spurningum jákvætt, þá er tími fyrir ykkur að láta aðra um að takst á við þetta erfiða verkefni.

Þessir erfiðleikar eru tækifæri okkar Íslendinga til þess að byggja upp nýtt þjóðfélag þar sem sköpungleðin og nægjusemin er við völd en ekki draugar fortíðarinnar og lífsgæðakapphlaupið. Við höfum tvo valkosti í stöðunni, annar er að horfa ofan í hyldýpið og stökkva um leið í það og gefast upp. Hinn er að í sameiningu finna byggingarefni og smíða brú yfir hyldýpið og halda svo áfram göngu okkar.

Hvert ætlar þú að stefna?