Sunday, October 2, 2011

Aldrei aftur

Fyrir rúmum þremur árum gengu Keníabúar í gegnum sitt erfiðasta tímabil frá því að landið fékk sjálfstæði. Eftir að forseti landsins sá fram á að flokkur hans myndi missa meirihluta á þingi landsins í kosningum, þá fyrirskipaði hann liðsmönnum sínum að framkvæma kosningasvik. Þegar hin svikulu úrslit voru kynnt sauð upp úr milli stjórnar og stjórnarandstæðinga. Það sem fylgdi var smánarblettur á þessu annars friðsæla ríki, þar sem ættbálkar börðust á banaspjótum og drápu fólk af öðrum ættbálkum. Næstu 4 mánuðir einkenndust af múgæsing, eyðileggingu og morðum. Það var ekki fyrr en alþjóðasamfélagið, undir forystu Kofi Annan, fyrrum aðalritara SÞ, að friðarsamkomulag var í höfn og stríðandi fylkingar hættu að ráðast hvor á aðra.

Ég hef á undanförnum árum heimsótt Kenía oft, bæði fyrir þennan tíma, á meðan á átökunum stóð og eins eftir að átökunum linnti. Fyrir mig var erfitt að sjá land sem ég unni mikið hrapa svo fljótt niður í nokkuð sem einungis er hægt að kalla borgarastríð. Mannskepnan virðist af einhverjum ástæðum eiga svo auðvelt með að ráðast á meðborgara sína ef eitthað bjátar á. Kannski er það vegna þess að það er auðveldara að berjast en að semja um frið.

En í heimsóknum mínum til Kenía eftir þessa atburði hef ég orðið var við breytt hugarfar meðal íbúa Kenía. Þeir áttuðu sig á því að stjórnmálamenn landsins höfðu misnotað íbúana og fengið þá til að ráðast á nágranna sína, einungis vegna þess að þeir væru af öðrum ættbálki en þeir sjálfir. Gamlar deilur um landsvæði og annað voru allt í einu rifnar upp og nýttar til að fá fólk upp á móti hvort öðru. Í dag segir fólkið hins vegar "ALDREI AFTUR":


  • ALDREI AFTUR ætlum við að láta stjórnmálamenn draga okkur út í óeirðir þar sem við ráðumst á nágranna okkar og samlanda
  • ALDREI AFTUR ætlum við að láta múgæsing orsaka það að við getum ekki lifað í sátt og samlyndi óháð ættbálkum
  • ALDREI AFTUR ætlum við að fara niður á það stig að hætta að hugsa og láta aðra segja okkur hvað við eigum að hugsa
Þessi sami hugsunarháttur hefur orsakað opnara samfélag og meiri gagnrýni á störf þeirra sem eru "fulltrúaar þjóðarinnar". Að sjálfsögðu eiga þeir langt í land, enda er lýðræði einungis nýtt hugtak fyrir þeim í samanburði við okkar löngu sögu lýðræðis en ég held að við getum líka lært af þeim.

Við á Íslandi þurfum að segja:

  • ALDREI AFTUR eigum við að láta stjórnmálamenn eða viðskiptajöfra telja okkur trú um að við séum svo sérstök að almennar reglur og gildi eigi ekki við um okkur.
  • ALDREI AFTUR eigum við að láta glepjast af gylliboðum um ódýrt fjármagn sem varla þurfi að borga til baka því það sé á svo góðum kjörum og þar með gleyma að lesa smáa letrið um allar áhætturnar.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja það að stjórnmálamenn hugsi um eigið skinn eða að koma vinum, vandamönnum eða samflokksmönnum í valdamiklar stöður. Stjórnmálamenn eiga að vera okkar fulltrúar - okkar allra.
  • ALDREI AFTUR eigum við að láta múgæsing orsaka það að við ráðumst hvort á annað, á lögregluna eða stjórnmálamenn - ekkert vandamál verður leyst með átökum, íkveikjum eða slettum á málningu. Við lifum í þjóðfélagi þar sem friðsöm mótmæli, beittir pennar og rökræður hafa virkað í þúsund ár.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja að þeir sem minna meiga sín þurfi að beri byrgðar eftir að áhættusæknir fjármálaspekúlantar tapa öllu. Til þess þurfum við að breyta regluverki, eftirliti og leikreglum á markaðinum.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja að stjórnmálamenn geri ekki annað en að skjóta á hvorn annan í stað þess að setjast niður og ræða hlutina. Það skiptir engu í hvaða flokki þú ert, það geta allir fundið samleið út úr ógöngunum ef allir aðilar hafa það að markmiði að gera þetta land byggilegt aftur.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja það að okkar menntaða fólk yfirgefi landið í stórum stíl í leit að betri tíð annars staðar. Í staðin eigum við að vinna saman að því að fá fjárfestingu inn í landið og styðja við bakið á þeim sem eru að reyna fyrir sér í nýsköpun. Við þurfum að vera opin fyrir öllum valkostum og ekki einblína á eina tegund fjárfestingar eða útiloka aðrar vegna þess hvaðan þær koma eða hvers eðlis þær eru.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja að fulltrúar landsins séu ekki tilbúnir að vera leiðtogar þjóðarinnar allrar. Það að leiða fólk áfram þýðir að hlusta á það og hjálpa því að komast í gegnum erfiðleikana. Það að stjórna fólki er að segja því fyrir verkum. Við þurfum leiðtoga en ekki stjórnendur.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja málþóf á okkar löggjafarþingi. Ef stjórnmálamenn geta ekki rætt málin af viti við hvorn annan á vitrænan hátt, þá eiga þeir ekki heima á þinginu. Þeir sem rausa og rausa í stað þess að finna lausnir geta farið niður á Ægissíðu í næsta hauststormi og rausað við Kára Kuldabola um það af hverju hann sé að blása þegar við viljum frekar logn.
  • ALDREI AFTUR eigum við að samþykkja að á Íslandi skuli fyrirfinnast fátækt. Það eru nægir peningar til í landinu, en þeir eru einfaldlega ekki nýttir á réttan hátt. Opnum upp allt bókhald ríkisins svo hægt sé að sjá nákvæmlega hvert allir peningar fara og þá geta talnaspekingar á auðveldan hátt fundið hvar má spara. Það þýðir ekkert að láta embættismenn um að reyna að finna sparnaðarleiðir, því þá horfa þeir of mikið í eigin barm.
  • ALDREI AFTUR eigum við að stefna í hættu okkar ástkæra landi, sem staðið hefur af sér harðneskju náttúrunnar og arðrán nýlenduherrana. 

Það væri auðvelt að halda áfram með mörg önnur aðtriði sem ALDREI AFTUR eiga að viðgangast í jafn þróuðu lýðræðisríki og Íslandi. Nú er þörf á alvöru leiðtogum, aðilum sem eru tilbúnir að gefa allt fyrir okkar ástkæra land og okkar mögnuðu þjóð, leiðtogum sem eru tilbúnir að leiða þessa þjóð aftur inn í tímabil farsældar, leiðtogum sem eru tilbúnir að láta af flokkadráttum og tækifærispólitík, leiðtogum sem eru tilbúnir að fara nýjar leiðir til þess að bæta kjör okkar og takast á við ástandið, leiðtogum sem hugsa fyrst og aðra og svo um sjálfa sig, leiðtoga sem þjóðin stendur á bakvið en gefst ekki upp á.

Við þurfum leiðtoga sem eru tilbúnir að segja ALDREI AFTUR, ALDREI AFTUR, ALDREI AFTUR.