Monday, December 22, 2014

Sjálfbær ferðaþjónusta

Að vissu leyti má færa rök að því að hin stóraukna ásókn ferðamanna til Íslands hafi mildað það högg sem varð eftir að allt hrundi árið 2008. Ferðamenn fóru að koma í stórum stíl, eyða gjaldeyri og sækjast eftir þjónustu. Þetta leiddi síðan til þess að alls konar ferðaþjónusta fór að vera í boði til þess að mæta þeirri miklu ásókn sem var í íslenska náttúru og afþreyjingu.

Það hefur hins vegar verið sorglegt að hluti þessarar auknu ferðaþjónustu hefur byggst upp með skyndigróða í huga og því oft ekki horft á að tryggja tekjur og tækifæri til framtíðar. Þetta eru mistök sem því miður allt of mörg lönd hafa gert og þau leiða einfaldlega til þess að áhugi fólks á að heimsækja þau dvínar mjög fljótt aftur og höggið sem verður við að ferðamennirnir koma ekki lengur verður mjög stórt.

Það er því mikilvægt að við leitum leiða til þess að hvetja þá sem bjóða upp á ferðaþjónustu að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu. Hvað á ég við með sjálfbæra þjónustu? Þar á ég við þjónustu sem horfir til lengri tíma. Þjónustu sem að einblínir á að byggja upp möguleika til framtíðar í stað þess að einblína á skyndigróða.

Gefum okkur dæmi. Segjum að aðili í ferðaþjónustu bjóði upp á hestaferðir. Ásóknin er góð og sífellt fleiri ferðamenn sækja í að koma á hestbak og njóta íslenskrar náttúru frá þessu sjónarhorni. Ef ásóknin er mikil, þá hlýtur að liggja best við að geta boðið upp á aukna þjónustu til að mæta eftirspurninni. Í stað þess að vera með 10 hesta í boði, þá er sótt um lán til þess að kaupa 10 hesta i viðbót. Viti menn, það kemur góð grein á TripAdvisor og allt í einu er brjálað að gera og nær allir 20 hestarnir í stanslausri notkun. Aftur er því farið í bankann og fengið lán fyrir 20 hestum í viðbót svo að hægt sé að græða enn nú meira á þessum blessuðu ferðamönnum. Nú eru komnir 40 hestar í stanslausri notkun, fullt af starfsfólki og allt virðist vera að ganga eins og best er á kosið.

Svo fara TripAdvisor umsagnirnar allt í einu að snúast við. Ljóminn af því að njóta fallegrar náttúru hefur horfið hjá ferðamönnunum, því að þeir upplifa nú orðið niðurtroðna slóða sem láta illa sjá eftir ágang allra hestanna. Það fara líka að koma kvartanir yfir því að þjónustan sé ekki eins persónuleg og fyrri viðskiptavinir hafi talað um. Allt í einu hrapa bókanir og ferðamenn leita annað. Nú fer að verða erfitt að standa undir lánunum af öllum hrossunum, svo ekki sé talað um af Range Rovernum sem keyptur var þegar ferðamannagóðærið virtist engan enda ætla að taka...

Tökum svo dæmi um ferðaþjónustuaðilann í næstu sveit við hliðina á. Rétt eins og hinn aðilinn þá var ákveðið að fara út í ferðaþjónustu og bjóða upp á hestaferðir. Þeir tíu hestar sem til voru á heimilinu voru notaðir og boðið upp á stuttar klukkutíma eða dagsferðir á hestum um sveitina. Þjónustan var persónuleg og náttúran að mestu leyti ósnert og fögur. Að sjálfsögðu létu viðskiptavinirnir ánægju sína í ljós á TripAdvisor og öðrum vefsíðum, rétt eins og hjá hinum aðilanum. Ásóknin jókst og ánægjan meðal viðskiptavinanna hélst stöðug.

Nú var komið að því að það var orðið að mestu fullbókað í allar ferðir. En eigandinn hafði áhyggjur af því að leiðirnar sem farnar voru í reiðtúrunum voru farnar að láta á sjá og var því hrædd við að bæta við fleiri ferðum á svæðið, nema eitthvað yrði fyrst gert til að tryggja að ástand svæðisins væri í góðu formi. Hún ákvað því að nýta hluta af tekjunum í að ráða starfsfólk í að græða upp hluta af því svæði sem var farið að láta á sjá. Leiðum var breytt meðan þau sár sem myndast höfðu í náttúruna voru grædd.

Í stað þess að auka framboðið, þá horfði eigandinn til þess hvernig hún gæti fengið meira út úr þeim ánægðu kúnnum sem hún var þegar að fá á svæðið. Hún fór að bjóða upp á "ekta íslenska sveitamáltíð" fyrir þá sem komu í styttri túranna og bauð upp á að velja um "lúxus nesti" fyrir þá sem voru að koma í dagsferðirnar. Hún bauð handverkskonum í sveitinni að selja vörur í hlöðunni þar sem tekið var á móti fólki. Allt saman leiddi þetta til ánægðari viðskiptavina sem eyddu meiri peningum, á meðan að náttúran fékk að haldast og raunverulegur ágóði jókst, í stað þess að skuldir jukust að sama skapi.

En hvað er hægt að gera til þess að höfða til ferðaþjónustuaðila að hugsa til lengri tíma og hugsa frekar um sjálfbærni en skyndigróða? Það eru margar leiðir til þess. Í fyrsta lagi eru til alþjóðlegir staðlar og vottanir um sjálfbærni. Við getum hvatt ferðaþjónustuaðila til þess að sækjast eftir slíkum vottunum. Við getum líka fundið leiðir til þess að lækka álögur á þá sem að velja að fylgja sjálfbærnihugsjónum, rétt eins og við gáfum eftir ýmis gjöld til þeirra sem völdu að kaupa rafmagnsbíla í stað bensínbíla. Aðilar eins og Íslandsstofa getur hjálpað til að koma þeim sérstaklega á framfæri sem eru með sjálfbæra ferðaþjónustu. Svo getum við líka farið hina leiðina og sett sérstakar álögur og skatta á þá sem að ekki fylgja sjálfbærni - oft virkar prikið betur en gulrótin í þessum efnum.

Það er mikilvægt að við hugsum til framtíðar. Við eigum einstaka náttúruperlu sem heitir Ísland. Við erum hins vegar á góðri leið með að leyfa ágangi og skammtímagróða að eyðileggja möguleika okkar til þess að njóta þessarar fegurðar. Áhugi ferðamanna er gífurlegur á Íslandi. En um leið og fólk fer að lesa um það hvernig þjónusta fer niður á við, náttúra fer að á sjá, þá hverfa töfrarnir sem að landið okkar hefur og ferðamenn leita annað. Lærum af mistökum annara þjóða og tryggjum að við séum að byggja upp ferðaþjónustu til framtíðar.

Wednesday, December 10, 2014

Að halda lífi í dreifðum byggðum

Í stjórnmálum á Íslandi er eilíf barátta milli landsbyggðarinanr og malbiksins. Stjórnmálamenn utan af landi reyna eftir mætti að halda lífi í dreifðum byggðum landsins og búa til atvinnutækifæri á landsbyggðinni. Oft gerist það í formi þess að flytja heilu stofnanirnar út á land með tilheyrandi kostnaði og röskun á starfsfólki. Stjórnmálamönnunum er auðvitað alveg sama því að þeir eru að tryggja atkvæði í sínu kjördæmi og hvort kjósendur á malbikinu verða fúlir skiptir þá ekki máli, því það eru ekki þeirra kjósendur.

Að sama skapi eru margir byggðakjarnar úti á landi mjög háðir einu eða tveimur stórum fyrirtækjum. Oft eru þetta útgerðir, kaupfélög eða önnur slík fyrirtæki. Mýmörg dæmi eru um það að þessi fyrirtæki stjórni í raun öllu í sveitarfélögunum sem þau eru í - ef þau biðja um eitthvað þá sé það auðvitað samþykkt því að annars er jú alltaf hætta á að þau fari annað.

Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að færri stóriðjur verða tilbúnar að byggja upp starfsemi fjarri stöðum sem að menntað starfsfólk er í boði, svo ekki sé talað um þau áhrif sem slík starfsemi hefur á umhverfið. Útgerðir munu einnig ganga í gegnum miklar sveiflur upp og niður eftir því sem að fiskistofnar hrynja eða vaxa í takt við breytingar í hafinu í kringum okkur. Sumar þeirra eru einnig farnar að hugsa um hagkvæmni og loka starfstöðum og sameina. Allt ógnar þetta framtíð dreifðar byggðar út um allt land.

En hvað er þá lausnin til þess að halda lífi í þessum dreifðu byggðum þar sem samgöngur eru jafnvel mjög erfiðar um hávetur. Hvernig getum við gefið þeim sem vilja búa á þessum fögru fjörðum og uppsveitum tækifæri til þess að njóta sömu tækifæra og þjónustu og þeir sem búa á malbikinu hafa?

Í síðasta pistli mínum fjallaði ég um þau tækifæri sem fjarmenntun veitti til þess að ná fram hagkvæmni stærðarinnar þrátt fyrir að vera lítil þjóð. Með því að auka tækifæri í fjarmenntun og fjarnámi þá erum við líka að auka tækifæri fólks sem býr utan höfuðborgarinnar til þess að sækja sér sömu menntun og þeir sem þar búa. Hvort nemandi býr á Neskaupstað eða í Nepal skiptir ekki öllu máli, séu möguleikar til þess að tengjast á netið í góðu lagi.

Við búum við það hér á landi að hafa fjárfest í ljósleiðara í kringum landið. Langflest byggðarlög úti á landi eru nú orðin tengd inn á þennan ljósleiðara og framþróun í þráðlausum fjarskiptum opna nú upp á möguleika að ná fram háhraðatengingum (1Gbps) í allt í 100km fjarlægð frá þeim punktum sem eru tengdir inn á ljósleiðara. Þetta þýðir að jafnvel afskektar byggðir landsins utan ljósleiðarahringsins er hægt orðið að tengja inn á hann fyrir litlar fjárhæðir.

Leið og hægt er að bjóða, sér í lagi ungu fólki, upp á aukin menntunartækifæri úti á landsbyggðinni, þá er jafnfræmt mikilvægt að skapa einnig atvinnutækifæri þar. Síðastliðin sjö ár hef ég unnið í fjarvinnu fyrir þau fyrirtæki og samtök sem ég hef unnið hjá. Í raun skipti það engu máli hvort ég var á Neskaupstað eða í Nairobi þegar ég vann mína vinnu, svo lengi sem að ég gat komist á Internetið.

Fyrirtæki eru í auknu mæli að bjóða starfsfólki sínu að vinna hvar sem er. Það hvort að höfuðstöðvar einhverjar stofnunnar eru í Reykjavík, Akureyri, eða Höfn í Hornafirði skiptir í raun ekki máli. Starfsfólkið getur verið hvar sem er - jafnvel erlendis. Þegar kemur að því hvar starfsfólkið þitt vinnur, þá skiptir mestu máli að það sé ánægt og hafi aðgang að netinu. Allt annað skiptir ekki máli. Síma- eða mynd-fjarfundir eru eitthvað sem við öll sem vinnum með erlendum aðilum gerum daglega. Því ætti ekki að vera hægt að nýta tæknina á sama máta til þess að hafa starfsfólk fyrirtækja og stofnanna staðsett hvar sem er í heiminum.

Að sama skapi þá opnar fjarvinna líka upp tækifæri fyrir fólk sem býr úti á landi til þess að starfa fyrir erlend fyrirtæki. Þessi fjarvinna getur bæði verið vinna sem krefst mikilar menntunar og reynslu eða hún getur verið einföld gangavinnsla, eins og t.d. það að skrifa niður læknaskýrslur út frá upptökum lækna - "iðnaður" sem veltir milljörðum á hverju ári.

Þessi auknu tækifæri til menntunar og starfa á hinum dreifðu svæðum, leiðir einnig til þess að aukin tækifæri verða til fyrir sköpun og frumnkvöðlastarf úti á landi. Það hvar frumkvöðlar starfa skiptir ekki máli ef að þeir alast upp við það að vinna með öðrum í gegnum netið. Það að framleiða og skapa nýjar vörur og þjónustu krefst þess ekki lengur að þú sért staðsett í London, París eða New York til þess að "meika það" - því að í dag eru flestar vörur seldar í gegnum netið og enginn veit hvort þær eru sendar frá pósthúsinu á Egilsstöðum eða Reykjavík.

Tækifæri fortíðarinnar fólust í því að byggja vegi og gera fólki kleyft að koma vörum á markaði og sækja þjónustu til höfuðborgarinnar. Möguleikar framtíðarinnar koma í gegnum starfrænar hraðbrautir ljósleiðaranna sem opna upp tækifæri til þess að sækja vinnu, þjónustu og menntun hvar sem er í heiminum og koma vörum á markað, óháð staðsetningu.

Við þurfum leiðtoga sem að sjá tækifæri í þessum nýja heimi í stað þess að halda að lausnir og aðferðafræðir fortíðarinnar eigi ennþá við. Hvort það gerist fyrr en hin stafræna kynslóð kemst til valda er spurning - kannski eru einhverjir leiðtogar þarna úti sem að átta sig á þeim breytta heimi sem við lifum í og grípa tækifærin þrátt fyrir að hafa ekki alist upp við þennan nýja stafræna veruleika.

Sunday, December 7, 2014

Að vera lítil þjóð

Við Íslendingar eru ekki fjölmenn þjóð. Það er oft gantast með það að við séum eins og hverfi í stórborg. Sjálfsímynd okkar speglast hins vegar í frægri setningu forsetafrúarinnar "stórasta land í heimi". Við héldum að við gætum orðið að stórri fjármálamiðstöð, en gleymdum að til þess þarf stórt hagkerfi sem getur tekið við sveiflum. Við reynum að halda úti heilbrigðiskerfi, en höfum ekki efni á því að borga læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki samkeppnishæf laun. Við höldum úti fjölmörgum háskólum, en höfum ekki hæga peninga eða getu til að bjóða upp á fjölbreytt og samkeppnishæft nám.

Þegar kemur að því að leysa vandamál smæðarinnar, þá einblína stjórnmálamenn ávalt á eina tegund af lausn í einu. Hér áður fyrr var það sjávarútvegurinn - það var alveg sama hvað þeir þurftu, gengisfellingar, meiri kvóta, o.s.frv. - það var gengið að þeirra kröfum og þörfum óháð því hvaða áhrif þetta hefði á aðra. Næst var það álið. Við hljótum að geta drifið áfram orkufrekan iðnað, því að við eigum ódýrt rafmagn. Við horfum framhjá því að iðnaður og virkjanir hafa áhrif á umhverfið og einnig því að oft fáum við ekki einu sinni starfsfólk til þess að vinna í þessum iðnaði.

Í upphafi þessarar aldar var það svo fjármálamarkaðurinn og það að eignast fyrirtæki út um allan heim sem átti að gera okkur að stórasta landi í heimi. Við vitum öll hvernig það fór. Eftir hrunið tók ferðamannaiðnaðurinn við og endalaus fjöldi ferðamanna streymir inn í landið og farið er að sjá á viðkvæmu landinu, því að skyndigróðinn er mikilvægari en varkár uppbygging.

Það er sorglegt að sjá að tækifæris-hugsunin ræður ríkjum. Stjórnmálamenn gera lítið annað en að ota sínum pota og argast út í hvern annan. Hér áður fyrr voru það Vinstri Grænir sem fengu nafnið "Alltaf á móti", en nú eru stjórnmálamenn allra flokka alltaf á móti hverju því sem að aðilar úr öðrum flokkum leggja til. Fögur kosningaloforð eru gefin og allt gert til þess að láta þau fram ganga, til þess eins að tryggja að næstu kosningar fari nú örugglega vel.

En getum við, þessi litla þjóð, þar sem allir eiga mikilla hagsmuna að geta, virkilega fundið leiðir til þess að horfa fram á við og stækka og þroskast á þá vegu að ekki hljótist skaði af og við förum ekki endalaust í gegnum sveiflur og bólur sem springa?

Á sama tíma og við erum að vaxa frá því að vera lítil sjálfstæð þjóð í miðju Atlandshafi, þá er heimurinn í kringum okkur einnig að breytast. Landamæri og fjarlægðir eru smátt og smátt að hverfa. Fólk býr og vinnur nú oft ekki lengur í sínu heimalandi eins og tíðkaðist. Fólk jafnvel býr ekki þar sem það vinnur, því að það að mæta til vinnu á skrifstofu er nú oft ekki lengur nauðsyn. Allar þessar breytingar skapa bæði tækifæri og ógnir fyrir litla þjóð eins og Ísland.

Ógnirnar eru þær að okkar besta fólk hefur miklu meiri tækifæri til þess að leita sér að námi eða vinnu úti í hinum stóra heimi og við getum því átt hættu á því að okkar besta og menntaðasta fólk hverfi af landi brott. Við erum þegar farin að sjá þetta í heilbrigðisgeiranum, þar sem að það er í raun af einskærri föðurlandsást að heilbrigðisstarfsfólk fer ekki úr landi.

Tækifærin eru þau að þetta opnar upp fyrir okkur möguleika á að skapa vinnu og skala upp þá hluti sem eru of smáir í rekstri í núverandi þjóðfélagi til þess að geta staðið undir sér rekstrarlega. Tökum aftur heilbrigðiskerfið sem dæmi. Í áratug(i) hefur Ísland átt sér draum um að hér sé "hátæknisjúkrahús". Raunveruleikinn er sá að svona lítil þjóð eins og við höfum ekki efni á því að byggja og reka slíkt sjúkrahús. Stjórnmálamenn gefa loforð um að ákveðið fjármagn fari í þetta og ganga jafnvel svo langt að láta teikna byggingar svo að draumnum sé haldið á lífi.

Heilbrigðisþjónusta er einn af stærstu geirunum í heiminum. Árlega eyða sjúklingar um 10 milljörðum dollara (1.240 milljarðar íslenskra króna) í sjúkrahúsþjónustu utan síns heimalands. Áætlað er að þessi tala hækki í 32.5 milljarða dollara (4.042 milljarðar íslenskra króna) árið 2019. Mjög stór hluti fólks fer til Asíu þar sem að sérstakur fókus hefur verið á að bjóða upp á topp þjónustu á hátæknispítölum. Aðilar hafa reynt að byrja að stíla inn á þennan markað í smáum stíl, en stjórnmálamenn verið fljótir að byrja að rífast um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Málið er einfaldlega það að ef við ætlum að geta boðið okkar besta heilbrigðisstarfsfólki upp á samkeppnishæf laun og áhugaverða vinnu, þá verðum við að skala upp okkar heilbrigðiskerfi. Slíkt þarf ekki að gerast eingöngu á kostnað ríkisins, heldur er hægt að fara í samstarf milli einkageirans og ríkisins í að fjármagna og byggja upp þjónustu á heimsmælikvarða sem eftirsótt væri bæði meðal sjúklinga og starfsfólks. Sé byggður hátæknispítali, sem ekki einungis geti þjónað þessum fáu íbúum þessa lands, heldur líka stórum fjölda fólks annars staðar frá, þá er hægt að ná fram hagkvæmni stærðarinnar sem nauðsynleg er til þess að slíkt verði arðbært. Hver veit, nema ef hugsað er stórt og rétt er haldið um verkefnið að þá finnum við leið til þess að fjármagna allan kostnað ríkisins við heilbrigðisþjónustu með sköttum af heilbrigðisþjónustu við erlenda aðila.

Lítum næst til háskólanna okkar. Við eigum ótrúlega flotta skóla, sem eru að gera góða hluti á heimsmælikvarða. Vandamálið er hins vegar það að smæðin er svo lítil að það er erfitt að bjóða upp á fjölbreytt nám við allra hæfi. Háskólarnir eru flestir reknir með miklum halla og oft lítið svigrúm til þess að auka fjölbreytileika eða til þess að laða að sér öflugt rannsóknarstarf.

Háskólanám um allan heim er að taka stórum stakkaskiptum. Staðsetning nemenda og skóla skiptir ekki eins miklu máli og áður. Það er hins vegar enn mjög mikilvægt að það nám sem þú tekur þér fyrir hendur sé viðurkennt og frá skóla sem heldur uppi háum gæðakröfum. Reiknað er með að árið 2017 verði 1.4 milljarður manna í einhvers konar fjarnámi í gegnum Internetið. Þessar breytingar eru rétt eins og áður sagði bæði forsenda tækifæra og ógna. Ógnirnar eru auðvitað þær að fólk stundi ekki lengur nám við skóla á Íslandi, því að það getur stundað fjölbreyttara nám við sitt hæfi við skóla annars staðar í heiminum, án þess þó að þurfa að fara úr túnfætinum heima á Íslandi.

Tækifærin eru þau að við eigum þegar öfluga skóla með góða kennara. Við eigum nám sem er viðurkennt og virt út um allan heim. Til þess að tryggja framtíð þess, þá þurfum við, rétt eins og innan heilbrigðiskerfisins að skala okkur upp þannig að rekstargrundvöllur sé fyrir hendi. Háskólar á Íslandi eru þegar byrjaðir að bjóða upp á fjarnám, en því miður er það enn mjög takmarkað og kennslan fer oft fram á íslensku, þó svo að mest allt námsefnið sé á ensku.

Við höfum stór tækifæri til þess að skala háskólanám á Íslandi upp með því að bjóða upp á öflugt, virt, og fjölbreytt nám í fjarkennslu sem verður mjög samkeppnishæft á hinunm alþjóðlega markaði. Rétt eins og með því að fá erlenda sjúklinga inn í heilbrigðiskerfið okkar til að ná fram hagkvæmni stærðarinnar þá er nauðsynlegt að bæta við þúsundum nemenda inn í haskólanám á Íslandi.

Þetta eru einungis tvö dæmi um það hvernig við, þessi litla þjóð, getum í hinu nýja umhverfi náð fram hagkvæmni stærðarinnar sem við hingað til höfum ekki haft tækifæri til. En til þess að slíkt náist fram að ganga, þá er nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn og samfélagið í heild að láta gamlar bábiljur og hræðslu við að gera hlutina öðruvísi ekki stoppa okkur í að tryggja að framtíð þessarar þjóðar sé tryggð.

Tími nýrrar hugsunar er komin og nauðsynlegt að allar hliðar stjórnmálanna vinni saman í stað þess að láta gamla og úrelta hugsjón og sjónarmið ráða ríkjum. Fyrir tæpum sjötíu árum, náðu tveir stjórnmálaleiðtogar, sitt úr hvorri hlið stjórnmálanna, Einar Olgeirsson og Ólafur Thors, að snúa bökum saman og vinna saman af því að koma Íslandi inn í tölu þróaðra landa. Nú er kominn tími á að finna leiðtoga sem eru tilbúnir að slíðra sverðin og koma Íslandi inn í tuttugustu og fyrstu öldina.