Wednesday, December 10, 2014

Að halda lífi í dreifðum byggðum

Í stjórnmálum á Íslandi er eilíf barátta milli landsbyggðarinanr og malbiksins. Stjórnmálamenn utan af landi reyna eftir mætti að halda lífi í dreifðum byggðum landsins og búa til atvinnutækifæri á landsbyggðinni. Oft gerist það í formi þess að flytja heilu stofnanirnar út á land með tilheyrandi kostnaði og röskun á starfsfólki. Stjórnmálamönnunum er auðvitað alveg sama því að þeir eru að tryggja atkvæði í sínu kjördæmi og hvort kjósendur á malbikinu verða fúlir skiptir þá ekki máli, því það eru ekki þeirra kjósendur.

Að sama skapi eru margir byggðakjarnar úti á landi mjög háðir einu eða tveimur stórum fyrirtækjum. Oft eru þetta útgerðir, kaupfélög eða önnur slík fyrirtæki. Mýmörg dæmi eru um það að þessi fyrirtæki stjórni í raun öllu í sveitarfélögunum sem þau eru í - ef þau biðja um eitthvað þá sé það auðvitað samþykkt því að annars er jú alltaf hætta á að þau fari annað.

Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að færri stóriðjur verða tilbúnar að byggja upp starfsemi fjarri stöðum sem að menntað starfsfólk er í boði, svo ekki sé talað um þau áhrif sem slík starfsemi hefur á umhverfið. Útgerðir munu einnig ganga í gegnum miklar sveiflur upp og niður eftir því sem að fiskistofnar hrynja eða vaxa í takt við breytingar í hafinu í kringum okkur. Sumar þeirra eru einnig farnar að hugsa um hagkvæmni og loka starfstöðum og sameina. Allt ógnar þetta framtíð dreifðar byggðar út um allt land.

En hvað er þá lausnin til þess að halda lífi í þessum dreifðu byggðum þar sem samgöngur eru jafnvel mjög erfiðar um hávetur. Hvernig getum við gefið þeim sem vilja búa á þessum fögru fjörðum og uppsveitum tækifæri til þess að njóta sömu tækifæra og þjónustu og þeir sem búa á malbikinu hafa?

Í síðasta pistli mínum fjallaði ég um þau tækifæri sem fjarmenntun veitti til þess að ná fram hagkvæmni stærðarinnar þrátt fyrir að vera lítil þjóð. Með því að auka tækifæri í fjarmenntun og fjarnámi þá erum við líka að auka tækifæri fólks sem býr utan höfuðborgarinnar til þess að sækja sér sömu menntun og þeir sem þar búa. Hvort nemandi býr á Neskaupstað eða í Nepal skiptir ekki öllu máli, séu möguleikar til þess að tengjast á netið í góðu lagi.

Við búum við það hér á landi að hafa fjárfest í ljósleiðara í kringum landið. Langflest byggðarlög úti á landi eru nú orðin tengd inn á þennan ljósleiðara og framþróun í þráðlausum fjarskiptum opna nú upp á möguleika að ná fram háhraðatengingum (1Gbps) í allt í 100km fjarlægð frá þeim punktum sem eru tengdir inn á ljósleiðara. Þetta þýðir að jafnvel afskektar byggðir landsins utan ljósleiðarahringsins er hægt orðið að tengja inn á hann fyrir litlar fjárhæðir.

Leið og hægt er að bjóða, sér í lagi ungu fólki, upp á aukin menntunartækifæri úti á landsbyggðinni, þá er jafnfræmt mikilvægt að skapa einnig atvinnutækifæri þar. Síðastliðin sjö ár hef ég unnið í fjarvinnu fyrir þau fyrirtæki og samtök sem ég hef unnið hjá. Í raun skipti það engu máli hvort ég var á Neskaupstað eða í Nairobi þegar ég vann mína vinnu, svo lengi sem að ég gat komist á Internetið.

Fyrirtæki eru í auknu mæli að bjóða starfsfólki sínu að vinna hvar sem er. Það hvort að höfuðstöðvar einhverjar stofnunnar eru í Reykjavík, Akureyri, eða Höfn í Hornafirði skiptir í raun ekki máli. Starfsfólkið getur verið hvar sem er - jafnvel erlendis. Þegar kemur að því hvar starfsfólkið þitt vinnur, þá skiptir mestu máli að það sé ánægt og hafi aðgang að netinu. Allt annað skiptir ekki máli. Síma- eða mynd-fjarfundir eru eitthvað sem við öll sem vinnum með erlendum aðilum gerum daglega. Því ætti ekki að vera hægt að nýta tæknina á sama máta til þess að hafa starfsfólk fyrirtækja og stofnanna staðsett hvar sem er í heiminum.

Að sama skapi þá opnar fjarvinna líka upp tækifæri fyrir fólk sem býr úti á landi til þess að starfa fyrir erlend fyrirtæki. Þessi fjarvinna getur bæði verið vinna sem krefst mikilar menntunar og reynslu eða hún getur verið einföld gangavinnsla, eins og t.d. það að skrifa niður læknaskýrslur út frá upptökum lækna - "iðnaður" sem veltir milljörðum á hverju ári.

Þessi auknu tækifæri til menntunar og starfa á hinum dreifðu svæðum, leiðir einnig til þess að aukin tækifæri verða til fyrir sköpun og frumnkvöðlastarf úti á landi. Það hvar frumkvöðlar starfa skiptir ekki máli ef að þeir alast upp við það að vinna með öðrum í gegnum netið. Það að framleiða og skapa nýjar vörur og þjónustu krefst þess ekki lengur að þú sért staðsett í London, París eða New York til þess að "meika það" - því að í dag eru flestar vörur seldar í gegnum netið og enginn veit hvort þær eru sendar frá pósthúsinu á Egilsstöðum eða Reykjavík.

Tækifæri fortíðarinnar fólust í því að byggja vegi og gera fólki kleyft að koma vörum á markaði og sækja þjónustu til höfuðborgarinnar. Möguleikar framtíðarinnar koma í gegnum starfrænar hraðbrautir ljósleiðaranna sem opna upp tækifæri til þess að sækja vinnu, þjónustu og menntun hvar sem er í heiminum og koma vörum á markað, óháð staðsetningu.

Við þurfum leiðtoga sem að sjá tækifæri í þessum nýja heimi í stað þess að halda að lausnir og aðferðafræðir fortíðarinnar eigi ennþá við. Hvort það gerist fyrr en hin stafræna kynslóð kemst til valda er spurning - kannski eru einhverjir leiðtogar þarna úti sem að átta sig á þeim breytta heimi sem við lifum í og grípa tækifærin þrátt fyrir að hafa ekki alist upp við þennan nýja stafræna veruleika.

No comments:

Post a Comment