Sunday, December 7, 2014

Að vera lítil þjóð

Við Íslendingar eru ekki fjölmenn þjóð. Það er oft gantast með það að við séum eins og hverfi í stórborg. Sjálfsímynd okkar speglast hins vegar í frægri setningu forsetafrúarinnar "stórasta land í heimi". Við héldum að við gætum orðið að stórri fjármálamiðstöð, en gleymdum að til þess þarf stórt hagkerfi sem getur tekið við sveiflum. Við reynum að halda úti heilbrigðiskerfi, en höfum ekki efni á því að borga læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki samkeppnishæf laun. Við höldum úti fjölmörgum háskólum, en höfum ekki hæga peninga eða getu til að bjóða upp á fjölbreytt og samkeppnishæft nám.

Þegar kemur að því að leysa vandamál smæðarinnar, þá einblína stjórnmálamenn ávalt á eina tegund af lausn í einu. Hér áður fyrr var það sjávarútvegurinn - það var alveg sama hvað þeir þurftu, gengisfellingar, meiri kvóta, o.s.frv. - það var gengið að þeirra kröfum og þörfum óháð því hvaða áhrif þetta hefði á aðra. Næst var það álið. Við hljótum að geta drifið áfram orkufrekan iðnað, því að við eigum ódýrt rafmagn. Við horfum framhjá því að iðnaður og virkjanir hafa áhrif á umhverfið og einnig því að oft fáum við ekki einu sinni starfsfólk til þess að vinna í þessum iðnaði.

Í upphafi þessarar aldar var það svo fjármálamarkaðurinn og það að eignast fyrirtæki út um allan heim sem átti að gera okkur að stórasta landi í heimi. Við vitum öll hvernig það fór. Eftir hrunið tók ferðamannaiðnaðurinn við og endalaus fjöldi ferðamanna streymir inn í landið og farið er að sjá á viðkvæmu landinu, því að skyndigróðinn er mikilvægari en varkár uppbygging.

Það er sorglegt að sjá að tækifæris-hugsunin ræður ríkjum. Stjórnmálamenn gera lítið annað en að ota sínum pota og argast út í hvern annan. Hér áður fyrr voru það Vinstri Grænir sem fengu nafnið "Alltaf á móti", en nú eru stjórnmálamenn allra flokka alltaf á móti hverju því sem að aðilar úr öðrum flokkum leggja til. Fögur kosningaloforð eru gefin og allt gert til þess að láta þau fram ganga, til þess eins að tryggja að næstu kosningar fari nú örugglega vel.

En getum við, þessi litla þjóð, þar sem allir eiga mikilla hagsmuna að geta, virkilega fundið leiðir til þess að horfa fram á við og stækka og þroskast á þá vegu að ekki hljótist skaði af og við förum ekki endalaust í gegnum sveiflur og bólur sem springa?

Á sama tíma og við erum að vaxa frá því að vera lítil sjálfstæð þjóð í miðju Atlandshafi, þá er heimurinn í kringum okkur einnig að breytast. Landamæri og fjarlægðir eru smátt og smátt að hverfa. Fólk býr og vinnur nú oft ekki lengur í sínu heimalandi eins og tíðkaðist. Fólk jafnvel býr ekki þar sem það vinnur, því að það að mæta til vinnu á skrifstofu er nú oft ekki lengur nauðsyn. Allar þessar breytingar skapa bæði tækifæri og ógnir fyrir litla þjóð eins og Ísland.

Ógnirnar eru þær að okkar besta fólk hefur miklu meiri tækifæri til þess að leita sér að námi eða vinnu úti í hinum stóra heimi og við getum því átt hættu á því að okkar besta og menntaðasta fólk hverfi af landi brott. Við erum þegar farin að sjá þetta í heilbrigðisgeiranum, þar sem að það er í raun af einskærri föðurlandsást að heilbrigðisstarfsfólk fer ekki úr landi.

Tækifærin eru þau að þetta opnar upp fyrir okkur möguleika á að skapa vinnu og skala upp þá hluti sem eru of smáir í rekstri í núverandi þjóðfélagi til þess að geta staðið undir sér rekstrarlega. Tökum aftur heilbrigðiskerfið sem dæmi. Í áratug(i) hefur Ísland átt sér draum um að hér sé "hátæknisjúkrahús". Raunveruleikinn er sá að svona lítil þjóð eins og við höfum ekki efni á því að byggja og reka slíkt sjúkrahús. Stjórnmálamenn gefa loforð um að ákveðið fjármagn fari í þetta og ganga jafnvel svo langt að láta teikna byggingar svo að draumnum sé haldið á lífi.

Heilbrigðisþjónusta er einn af stærstu geirunum í heiminum. Árlega eyða sjúklingar um 10 milljörðum dollara (1.240 milljarðar íslenskra króna) í sjúkrahúsþjónustu utan síns heimalands. Áætlað er að þessi tala hækki í 32.5 milljarða dollara (4.042 milljarðar íslenskra króna) árið 2019. Mjög stór hluti fólks fer til Asíu þar sem að sérstakur fókus hefur verið á að bjóða upp á topp þjónustu á hátæknispítölum. Aðilar hafa reynt að byrja að stíla inn á þennan markað í smáum stíl, en stjórnmálamenn verið fljótir að byrja að rífast um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Málið er einfaldlega það að ef við ætlum að geta boðið okkar besta heilbrigðisstarfsfólki upp á samkeppnishæf laun og áhugaverða vinnu, þá verðum við að skala upp okkar heilbrigðiskerfi. Slíkt þarf ekki að gerast eingöngu á kostnað ríkisins, heldur er hægt að fara í samstarf milli einkageirans og ríkisins í að fjármagna og byggja upp þjónustu á heimsmælikvarða sem eftirsótt væri bæði meðal sjúklinga og starfsfólks. Sé byggður hátæknispítali, sem ekki einungis geti þjónað þessum fáu íbúum þessa lands, heldur líka stórum fjölda fólks annars staðar frá, þá er hægt að ná fram hagkvæmni stærðarinnar sem nauðsynleg er til þess að slíkt verði arðbært. Hver veit, nema ef hugsað er stórt og rétt er haldið um verkefnið að þá finnum við leið til þess að fjármagna allan kostnað ríkisins við heilbrigðisþjónustu með sköttum af heilbrigðisþjónustu við erlenda aðila.

Lítum næst til háskólanna okkar. Við eigum ótrúlega flotta skóla, sem eru að gera góða hluti á heimsmælikvarða. Vandamálið er hins vegar það að smæðin er svo lítil að það er erfitt að bjóða upp á fjölbreytt nám við allra hæfi. Háskólarnir eru flestir reknir með miklum halla og oft lítið svigrúm til þess að auka fjölbreytileika eða til þess að laða að sér öflugt rannsóknarstarf.

Háskólanám um allan heim er að taka stórum stakkaskiptum. Staðsetning nemenda og skóla skiptir ekki eins miklu máli og áður. Það er hins vegar enn mjög mikilvægt að það nám sem þú tekur þér fyrir hendur sé viðurkennt og frá skóla sem heldur uppi háum gæðakröfum. Reiknað er með að árið 2017 verði 1.4 milljarður manna í einhvers konar fjarnámi í gegnum Internetið. Þessar breytingar eru rétt eins og áður sagði bæði forsenda tækifæra og ógna. Ógnirnar eru auðvitað þær að fólk stundi ekki lengur nám við skóla á Íslandi, því að það getur stundað fjölbreyttara nám við sitt hæfi við skóla annars staðar í heiminum, án þess þó að þurfa að fara úr túnfætinum heima á Íslandi.

Tækifærin eru þau að við eigum þegar öfluga skóla með góða kennara. Við eigum nám sem er viðurkennt og virt út um allan heim. Til þess að tryggja framtíð þess, þá þurfum við, rétt eins og innan heilbrigðiskerfisins að skala okkur upp þannig að rekstargrundvöllur sé fyrir hendi. Háskólar á Íslandi eru þegar byrjaðir að bjóða upp á fjarnám, en því miður er það enn mjög takmarkað og kennslan fer oft fram á íslensku, þó svo að mest allt námsefnið sé á ensku.

Við höfum stór tækifæri til þess að skala háskólanám á Íslandi upp með því að bjóða upp á öflugt, virt, og fjölbreytt nám í fjarkennslu sem verður mjög samkeppnishæft á hinunm alþjóðlega markaði. Rétt eins og með því að fá erlenda sjúklinga inn í heilbrigðiskerfið okkar til að ná fram hagkvæmni stærðarinnar þá er nauðsynlegt að bæta við þúsundum nemenda inn í haskólanám á Íslandi.

Þetta eru einungis tvö dæmi um það hvernig við, þessi litla þjóð, getum í hinu nýja umhverfi náð fram hagkvæmni stærðarinnar sem við hingað til höfum ekki haft tækifæri til. En til þess að slíkt náist fram að ganga, þá er nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn og samfélagið í heild að láta gamlar bábiljur og hræðslu við að gera hlutina öðruvísi ekki stoppa okkur í að tryggja að framtíð þessarar þjóðar sé tryggð.

Tími nýrrar hugsunar er komin og nauðsynlegt að allar hliðar stjórnmálanna vinni saman í stað þess að láta gamla og úrelta hugsjón og sjónarmið ráða ríkjum. Fyrir tæpum sjötíu árum, náðu tveir stjórnmálaleiðtogar, sitt úr hvorri hlið stjórnmálanna, Einar Olgeirsson og Ólafur Thors, að snúa bökum saman og vinna saman af því að koma Íslandi inn í tölu þróaðra landa. Nú er kominn tími á að finna leiðtoga sem eru tilbúnir að slíðra sverðin og koma Íslandi inn í tuttugustu og fyrstu öldina.

No comments:

Post a Comment