Monday, December 22, 2014

Sjálfbær ferðaþjónusta

Að vissu leyti má færa rök að því að hin stóraukna ásókn ferðamanna til Íslands hafi mildað það högg sem varð eftir að allt hrundi árið 2008. Ferðamenn fóru að koma í stórum stíl, eyða gjaldeyri og sækjast eftir þjónustu. Þetta leiddi síðan til þess að alls konar ferðaþjónusta fór að vera í boði til þess að mæta þeirri miklu ásókn sem var í íslenska náttúru og afþreyjingu.

Það hefur hins vegar verið sorglegt að hluti þessarar auknu ferðaþjónustu hefur byggst upp með skyndigróða í huga og því oft ekki horft á að tryggja tekjur og tækifæri til framtíðar. Þetta eru mistök sem því miður allt of mörg lönd hafa gert og þau leiða einfaldlega til þess að áhugi fólks á að heimsækja þau dvínar mjög fljótt aftur og höggið sem verður við að ferðamennirnir koma ekki lengur verður mjög stórt.

Það er því mikilvægt að við leitum leiða til þess að hvetja þá sem bjóða upp á ferðaþjónustu að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu. Hvað á ég við með sjálfbæra þjónustu? Þar á ég við þjónustu sem horfir til lengri tíma. Þjónustu sem að einblínir á að byggja upp möguleika til framtíðar í stað þess að einblína á skyndigróða.

Gefum okkur dæmi. Segjum að aðili í ferðaþjónustu bjóði upp á hestaferðir. Ásóknin er góð og sífellt fleiri ferðamenn sækja í að koma á hestbak og njóta íslenskrar náttúru frá þessu sjónarhorni. Ef ásóknin er mikil, þá hlýtur að liggja best við að geta boðið upp á aukna þjónustu til að mæta eftirspurninni. Í stað þess að vera með 10 hesta í boði, þá er sótt um lán til þess að kaupa 10 hesta i viðbót. Viti menn, það kemur góð grein á TripAdvisor og allt í einu er brjálað að gera og nær allir 20 hestarnir í stanslausri notkun. Aftur er því farið í bankann og fengið lán fyrir 20 hestum í viðbót svo að hægt sé að græða enn nú meira á þessum blessuðu ferðamönnum. Nú eru komnir 40 hestar í stanslausri notkun, fullt af starfsfólki og allt virðist vera að ganga eins og best er á kosið.

Svo fara TripAdvisor umsagnirnar allt í einu að snúast við. Ljóminn af því að njóta fallegrar náttúru hefur horfið hjá ferðamönnunum, því að þeir upplifa nú orðið niðurtroðna slóða sem láta illa sjá eftir ágang allra hestanna. Það fara líka að koma kvartanir yfir því að þjónustan sé ekki eins persónuleg og fyrri viðskiptavinir hafi talað um. Allt í einu hrapa bókanir og ferðamenn leita annað. Nú fer að verða erfitt að standa undir lánunum af öllum hrossunum, svo ekki sé talað um af Range Rovernum sem keyptur var þegar ferðamannagóðærið virtist engan enda ætla að taka...

Tökum svo dæmi um ferðaþjónustuaðilann í næstu sveit við hliðina á. Rétt eins og hinn aðilinn þá var ákveðið að fara út í ferðaþjónustu og bjóða upp á hestaferðir. Þeir tíu hestar sem til voru á heimilinu voru notaðir og boðið upp á stuttar klukkutíma eða dagsferðir á hestum um sveitina. Þjónustan var persónuleg og náttúran að mestu leyti ósnert og fögur. Að sjálfsögðu létu viðskiptavinirnir ánægju sína í ljós á TripAdvisor og öðrum vefsíðum, rétt eins og hjá hinum aðilanum. Ásóknin jókst og ánægjan meðal viðskiptavinanna hélst stöðug.

Nú var komið að því að það var orðið að mestu fullbókað í allar ferðir. En eigandinn hafði áhyggjur af því að leiðirnar sem farnar voru í reiðtúrunum voru farnar að láta á sjá og var því hrædd við að bæta við fleiri ferðum á svæðið, nema eitthvað yrði fyrst gert til að tryggja að ástand svæðisins væri í góðu formi. Hún ákvað því að nýta hluta af tekjunum í að ráða starfsfólk í að græða upp hluta af því svæði sem var farið að láta á sjá. Leiðum var breytt meðan þau sár sem myndast höfðu í náttúruna voru grædd.

Í stað þess að auka framboðið, þá horfði eigandinn til þess hvernig hún gæti fengið meira út úr þeim ánægðu kúnnum sem hún var þegar að fá á svæðið. Hún fór að bjóða upp á "ekta íslenska sveitamáltíð" fyrir þá sem komu í styttri túranna og bauð upp á að velja um "lúxus nesti" fyrir þá sem voru að koma í dagsferðirnar. Hún bauð handverkskonum í sveitinni að selja vörur í hlöðunni þar sem tekið var á móti fólki. Allt saman leiddi þetta til ánægðari viðskiptavina sem eyddu meiri peningum, á meðan að náttúran fékk að haldast og raunverulegur ágóði jókst, í stað þess að skuldir jukust að sama skapi.

En hvað er hægt að gera til þess að höfða til ferðaþjónustuaðila að hugsa til lengri tíma og hugsa frekar um sjálfbærni en skyndigróða? Það eru margar leiðir til þess. Í fyrsta lagi eru til alþjóðlegir staðlar og vottanir um sjálfbærni. Við getum hvatt ferðaþjónustuaðila til þess að sækjast eftir slíkum vottunum. Við getum líka fundið leiðir til þess að lækka álögur á þá sem að velja að fylgja sjálfbærnihugsjónum, rétt eins og við gáfum eftir ýmis gjöld til þeirra sem völdu að kaupa rafmagnsbíla í stað bensínbíla. Aðilar eins og Íslandsstofa getur hjálpað til að koma þeim sérstaklega á framfæri sem eru með sjálfbæra ferðaþjónustu. Svo getum við líka farið hina leiðina og sett sérstakar álögur og skatta á þá sem að ekki fylgja sjálfbærni - oft virkar prikið betur en gulrótin í þessum efnum.

Það er mikilvægt að við hugsum til framtíðar. Við eigum einstaka náttúruperlu sem heitir Ísland. Við erum hins vegar á góðri leið með að leyfa ágangi og skammtímagróða að eyðileggja möguleika okkar til þess að njóta þessarar fegurðar. Áhugi ferðamanna er gífurlegur á Íslandi. En um leið og fólk fer að lesa um það hvernig þjónusta fer niður á við, náttúra fer að á sjá, þá hverfa töfrarnir sem að landið okkar hefur og ferðamenn leita annað. Lærum af mistökum annara þjóða og tryggjum að við séum að byggja upp ferðaþjónustu til framtíðar.

No comments:

Post a Comment